07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (4821)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er satt hjá hv. meiri hl., að það er mikið öryggi fólgið í því fyrir skip að hafa loftskeytastöðvar. En það er margt annað, sem mikið öryggi veitir og ódýrara mundi verða í rekstri, og vil ég þar t. d. nefna miðunarstöðvar og dýptarmæla. Þó þessi áhöld verði dýr upphaflega, verða þau ódýr í rekstri. Það er mjög varhugavert að íþyngja að nýju þessari útgerð. Ég hefi í nál. sýnt fram á þann mikla mismun, sem er á mannakaupi á íslenzkum og norskum skipum. Hér er erfitt um vik fyrir okkur og samkeppnin hörð. Norðmenn greiða í mannakaup á slíkum skipum um 33 þús. kr. á ári, við 52 þús. Þá hafa og Norðmenn gert allt til þess að hnekkja þessari útgerð okkar. Í norska blaðinu „Fiskeren“ er komizt svo að orði um þessa útgerð okkar, um það leyti að verið var að koma fótum undir hana, að eigi muni þurfa að óttast þessa byrjun, því að starfræksla öll sé svo dýr hér, að útgerðin muni leggjast niður bráðlega. Í öðrum löndum, eða a. m. k. á Norðurlöndum, eru flutningaskip eigi skylduð til að vera búin slíkum tækjum. Þessi aukni kostnaður, sem frv. felur í sér fyrir þessa útgerð, mundi því verða hjálp til Norðmanna í keppninni við okkur um flutningana. Það er enginn efi, að stofnkostnaður 125 kílóvatta stöðvar, með öllu, sem til þarf, skýli fyrir stöðina o. s. frv., mundi ekki nema minna en 6—7 þús. kr. En þó er þetta ekki aðalatriðið, heldur hinn mikli rekstrarkostnaður, sem felst í því, að bæta þarf manni á skipin. Það er meira en lítið hæpið, að stýrimaður eða skipstjóri geti unnið þessi störf. Þó þeir tækju sig til og lærðu loftskeytafræði, verður það ekki skemmra en 9 mánaða nám, eftir því sem landssímastjóri hefir tjáð mér, en margir eru lengur. Ég er því hræddur um, að ekki verði komizt hjá því að hafa sérstakan munn. Ég get og upplýst það, að árl. kostnaður á togurunum við loftskeytastöðvarnar mun aldrei vera undir 4—5 þús. kr. Þetta yrði meira en lítill baggi á flutningaskipin, og virtist þá fremur fært að setja í þau talstöðvar. Þær geta skipin fengið leigðar hjá landssímanum fyrir 400—500 kr. á ári. Ég held, að við verðum að fara gætilega í kröfurnar gagnvart þessari útgerð, með tilliti til hinnar erfiðu aðstöðu hennar. Síðan ísl. skipin komu, hefir útflutningsgjald á fiski til Suðurlanda lækkað og Norðmenn hafa neyðzt til þess að lækka í samræmi við þau, og niður fyrir þau í samkeppnisskyni. Ég vil benda hv. dm. á, hve varhugavert er að samþ. frv. þetta óbreytt. Það væri illa farið, nú í atvinnuleysinu, ef útgerð þessi, sem greiðir yfir 200 þús. á ári í kaupgjaldið eitt, stöðvaðist.