07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (4822)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég tel rétt að svara hv. minni hl. að nokkru, þar sem hann virðist vera algerlega andstæður skoðunum meiri hl. á málinu. Hv. þm. sagði, að skipin hefðu miðunarstöð og dýptarmæla. (JAJ: Það sagði ég ekki; ég sagði, að það væri mikið öryggi í að hafa það). Já, en það er ekki jafnmikið öryggi. Miðunartæki og dýptarmælar koma sjómönnum helzt að gagni upp undir landi. Þeir fara fyrst að nota þessi tæki, er þeir nálgast land. Auk þess eru þau dýr, og mun vart fást undir 3000 kr. miðunarstöð, en dýptarmælir mun kosta um 8—10 þús. kr. Í þessu sambandi er og vert að athuga það, hvort eigi verða reistar miðunarstöðvar á landi, og verður þeirra þá eigi þörf á skipunum.

Íslenzku togararnir hafa loftskeytastöðvar, en ekki talstöðvar, og ég held, að eigendur togaranna telji sér það hagkvæmt. Þeir vita sem er, að það er í senn trygging fyrir lífi skipshafnar, skipi og farmi. Reynslan hefir sýnt þeim, að svo er. — Hv. þm. var að bera saman kaupgjald í Noregi og hér á þessum skipum. Það er mikið rétt hjá honum, að kaupið er lægra í Noregi, en það er líka ódýrara að lifa þar og ekki sambærilegt t. d. við Rvík.

Tekjur þessara manna á skipunum eru um 260 kr. á mán., þegar aukavinna er reiknuð með, og fyrir þetta fé eiga þeir að kaupa allar sínar lífsnauðsynjar og halda uppi fjölskyldu sinni. Ég held, að hv. þm. geti ekki talið þetta hátt. Annars get ég upplýst það, að norskir sjómenn munu hafa mikinn hug á að fá kaup sitt hækkað innan skamms.

Ég fæ nú ekki séð, að við séum að hjálpa Norðmönnum með þessu. Ég er enginn vinur norskra útgerðarmanna, eftir því sem þeir hafa komið fram hér almennt, en ég sé eigi ástæðu til að fara að halda hér ræðu yfir þeim. Ég tel ekki affarasæla þá samkeppni, sem hér er milli þjóðanna um þessu flutninga.

Annarsstaðar, t. d. meðal Breta, er nú ekki meira um annað rætt en þessa samkeppni í siglingunum, og munu þeir hafa fullan hug á að leiða þau mál til farsælla lykta fyrir siglingar sínar.

Hv. þm. gerði mikið úr því, að skýli þyrfti að byggja á skipunum undir stöðvarnar. Það er nú svo, að á sumum skipunum eru þessi skýli fyrir hendi, þar sem skipin hafa áður verið búin loftskeytatækjum. (JAJ: Þessi skip?). Já — t. d. Katla. Ég held, að ég fari rétt með það. Annars er nóg rúm í lyftingu fyrir loftskeytastöðvarnar, og verður það ekki til annars betur notað. Annars getur rekstur og viðhald stöðvanna á flutningaskipunum aldrei orðið eins mikið og á togurunum, eins og hv. þm. vill halda fram. Skeytasendingar á togurunum eru mjög tíðar, sökum þess, að þeir standa í stöðugu sambandi við útgerðarmennina.

Hv. þm. bendir á þá leið, að leigja talstöð fyrir 400—500 kr. á ári. Með því fé væri á áttu árum borgaður stofnkostnaður loftskeytastöðvar með leigunni einni, og hygg ég, að útgerðarmenn vilji fremur verja því fé til loftskeytastöðvar en fleygja því þannig í leigu talstöðva.

Hv. þm. gat þess, að Norðmenn hefðu sett niður flutningskostnaðinn. Það er nú svo um skip Norðmanna, að þau eru lélegri en skip okkar, og þurfa því að bjóða verðið niður. Fiskur, sem fluttur er með okkar skipum, þykir og „koma betur fram“, eins og það er kallað, en fiskur fluttur á þeirra skipum. Það reynist svo, að betur fari um hann á leiðinni út, og er það því spurning, hvort það borgar sig að nota þessa norsku „kláfa“, enda þótt flutningsgjald kunni að vera nokkru lægra.

Þá er og vert að geta þess, að okkar skip eru hraðskreiðari. Síðasta sumar fékk t. d. Edda aukagjald fyrir sérlega fljóta ferð, en svo stóð á, að koma þurfti fiskinum á markað á tilteknum tíma. Okkar skip hafa frá 10 upp í 13 mílna hraða, en norsku skipin ekki nema 8—9 að jafnaði.

Hv. þm. endaði með því að gefa í skyn, að hættulegt væri að samþ. frv., því að það mundi geta haft það í för með sér, að hætt yrði að gera skipin út. Ég bið hann að leiðrétta mig, ef ég fer hér rangt með. Hver trúir nú því, að hætt verði að gera skipin út vegna þessara 4—6 þús. kr.? Nei, þetta er of langt gengið hjá hv. þm. Mér er þetta mál það kunnugt, að ég veit, að eigendur skipanna munu ekki fleygja þeim frá sér fyrir þessar sakir. Maður hefir áður heyrt svona nokkru slegið fram, en þær hrakspár hafa aldrei rætzt, og ég vona, að svo verði ekki heldur nú.