07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (4825)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Magnús Jónsson [óyfirl].:

Hv. frsm. meiri hl. sjútvn., sem einnig er 1. flm. þessa frv., beitti hér röksemdafærslu, sem ekki er óalgeng hér á Alþingi, þegar á að koma einhverju fram, sem í sjálfu sér er gott og þarft, en verður þó ekki komið í framkvæmd, nema annað hljótist af, sem orðið getur miklu verra. Hv. þm. sýndi mjög fram á það, hve mikið öryggi væri í því fyrir skipin að hafa loftskeytastöðvar. Þetta er alveg dagsatt. En hér er alveg eins og þegar verið er að mæla með einhverri fjárveitingu, sem einhver hefir gagn af og þess vegna er talin sjálfsögð. En þessi rökfærsla er ekki einhlít, þegar valið er á milli ýmsra góðra hluta, sem hægt er að nota féð til. Við erum sammála um, að það sé t. d. gott og þægilegt að eiga bíl, en það, sem ræður hjá okkur, að við kaupum þó ekki bifreiðina, er það, að við komumst að þeirri niðurstöðu, að við getum notað peningana til einhvers annars, sem er betra. Það er enginn ágreiningur um það, að bezt væri að hafa loftskeytastöðvar á öllum skipum. Það getur svo sem alltaf komið fyrir í hafi, að betra sé fyrir skipin að hafa loftskeytastöðvar, til þess að senda neyðarskeyti. Það væri náttúrlega mest öryggi í því að banna skipum að sigla milli landa, nema þau hafi loftskeytatæki og nái einhverri ákveðinni stærð. Það, sem hér er um að ræða, er ekki annað en það, hvort nauðsynin sé svo mikil fyrir loftskeytastöðvar, að við sjáum ekki í það að setja atvinnuveginn í hættu af þeim sökum, eins og gert er með þessu frv.

Hv. frsm. meiri hl. álítur, að útgerðarfyrirtækin séu ekki sett í neina hættu með samþykkt þessa frv. Við álítum aftur á móti, að þessi atvinnuvegur sé með því settur í mjög mikla hættu.

Hv. sessunautur minn benti á það með réttu, að það vantaði allan kunnugleika um rekstrarafkomu þessara skipa. Þetta er alveg rétt. Ég held einmitt, að það sé ákaflega nauðsynlegt, að það sé á vitorði þeirra, sem eiga að skera, úr í þessu efni, hvernig skipin bera sig. Ég held líka, ef sú reynsla væri fengin, þá mundi það sýna sig, að þessi atvinnuvegur berst í bökkum. Það þýðir ekkert að vitna í eitt dæmi, eins og vestra, þó hagnaður hafi orðið á rekstri hans. Það þarf að styðjast við margra ára reynslu. Það getur komið fyrir, að þessi skip séu ekki nema hálfan annan mánuð að flytja farm til Spánar, en svo getur líka farið svo, að þau séu hálfan fjórða mánuð í ferðinni. Nei, það er fyrst þegar komin er nokkurra ára reynsla um rekstur þeirra, að það kemur í ljós, hvort vogandi er að ætla þessum skipum meiri álögur. Ég gæti hugsað, að það færi svo með þessa útgerð okkar, að hún standist ekki hina hörðu samkeppni, að það færi með hana eins og togaraflotann á síðari árum, að eitt og eitt skip heltist úr lestinni, en ekkert kæmi í staðinn. Það er ekki rétt að gera leik til þess, að svo fari. Náttúrlega má segja, að það muni ekki mikið um 6000 kr. Það sé ekki nema eins og þegar einn dropi sé látinn leka í glas, en það munar um þetta, þó ekki sé meira. „Það er alltaf drjúgt, sem drýpur“. segir máltækið, og á endanum verður glasið fullt, svo flóir út af.

Hv. frsm. meiri hl. hefir talað mikið um það, að við vildum amast við því, að skipin fengju loftskeytastöðvar, en vildum aftur, að þau fengju dýptarmæli. Ég hefi ekki heyrt hv. frsm. minni hl. sjútvn. bera fram neinar kröfur um dýptarmæli á skipin, en hann hefir sýnt fram á, að það er miklu nauðsynlegra tæki heldur en loftskeytatæki og hefir auk þess þann kost, að þar er enginn rekstrarkostnaður. Ég held, að hv. frsm. meiri hl. hafi farið með rökfalsanir í því, að hægt verði að fela einhverjum tveimur mönnum af skipshöfninni að sjá um loftskeytatækin. Það hefir verið upplýst, að það kostar 9 mánaða nám að geta farið með þau tæki, og ég vil spyrja, hvort það sé sennilegt, að skipstjórar eða stýrimenn muni vilja sitja í landi nærri því heilt ár fyrir ekki neitt, við að læra það. Og það er annað líka, það er viðurkennd regla, að menn geta ekki lært þetta starf eftir að þeir eru komnir yfir vissan aldur. Ég man eftir því í sambandi við eitt ákveðið mál, sem kom hér fyrir þingið eitt sinn, að Forberg heitinn landssímastjóri sagði það, að yfirleitt væri heimtað, að ekki nema ungir menn lærðu símritun, af því að öðrum væri það ekki fært. Nú er það svo, að flestir yfirmenn þessara skipa eru rosknir menn, sem ekki mundu geta lært þetta starf, og þá verð ég að segja, að það væri beint hlægilegt, ef farið yrði að setja loftskeytastöðvar í skipin, ef svo þeir, sem með þær ættu að fara, hefðu ekki nema að litlu leyti skilyrði til að geta það.

Svo er annað. Ég býst við, að fagfélag loftskeytamanna mundi þá koma til skjalanna og gera kröfur um, að það væru í raun og veru faglærðir menn, sem gegndu þessu starfi. Mér þætti ekki ólíklegt, að einmitt hv. frsm. meiri hl. yrði fremstur í flokki við að fylgju fram þeim kröfum, eins og öðrum kröfum félagsbundinna fagmanna. Það mundi ekki þýða annað en það, að a. m. k. 6—8 þús. kr. kostnaður yrði á ári við þessar stöðvar. Kaupverðið yrði smáræði samanborið við rekstrarkostnaðinn. Ég veit ekki, hvort hv. frsm. meiri hl. þætti eðlilegt, að þessum kostnaði væri náð upp með lægra kaupi skipsmanna, með meiri jöfnuði á kaupi við það, sem keppinautar okkar greiða á sínum skipum. Þá mundi hann í raun og veru meta mikils þetta aukna öryggi mannslífanna, ef hann teldi mega spara við aðra menn á skipunum sem þessu svarar. En ég býst við, að hann vildi það ekki, og ég mundi ekki heldur vilja það, fyrir jafnlítið aukið öryggi sem ég hygg, að hér sé um að ræða.

Nei, því miður er það svo, að hér rekur upp höfuðið sú niðurrifsstefna, sem er allt of algeng hér hjá okkur, að hvenær sem byrjað er á einhverri atvinnugrein, sem líkur eru til, að gæti borið sig, er þegar farið að gera til hennar meiri og meiri kröfur um ýmislegt, sem í sjálfu sér er gott og blessuð að hafa, og e. t. v. munar ekki svo mikið um í hvert skipti, að líklegt sýnist, að þær velti fyrirtækinu um. En svona kröfur, sem t. d. hafa verið gerðar til togaraútgerðarinnar, er meginástæðan til þess, að togaraflotinn er nú að rýrna og hverfa. Þetta er e. t. v. eðlilegt frá sjónarmiði hv. frsm. meiri hl. og flokksmanna hans, sem óska, að einstaklingsreksturinn á þessu sviði sem öðrum sýni sig sem óheppilegastan, svo ríkið hafi ástæðu til að taka í taumana og fara að reka atvinnufyrirtækin sjálft. En ég gæti hugsað mér, að ánægjan yfir ríkisrekstrinum færi að minnka eftir svo sem áratug. Þá væri ekki lengur hægt að grípa til þess að skattleggja einstaklingsfyrirtækin til þess að jafna hallann á ríkisrekstrinum, því þá ætti ríkið allt og yrði að sjá fyrir öllum. En hv. frsm. og hans nótar hugsa líklega sem svo: Er á meðan er, við skulum halda kröfunum áfram meðan einhverjir eru uppistandandi. Og þeim, sem þannig hugsa, er því miður allt of mikið léð eyra frá þeim mönnum, sem þó eru ekki flokksbundnir sósíalistar, þó ég gangi út frá, að þetta frv. verði ekki látið verða að lögum.

Það er vitanlega eitthvað aukið öryggið með því að hafa þessi tæki á skipum, en hitt verður líka að viðurkenna, að með þessu frv. á að gera meiri kröfur til okkar, frumbýlinganna og byrjendanna á þessu sviði eins og mörgum öðrum, heldur en fært hefir þótt að gera til siglingaþjóða yfirleitt með alþjóðasamþykktum. Ég tel eðlilegt, að þessi krafa sé látin bíða, þangað til búið er að taka hana upp í alþjóðasamþykktir, svo keppinautar okkar standi jafnt að vígi eins og við.