07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (4826)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það hafa nú 3 af hv. þm. ráðizt á þetta litla frv., og finn ég ástæðu til að svara sumu af því, sem fram hefir komið í ræðum þeirra. Ég skal byrja á hv. 1. þm. Skagf. Hann vildi láta líta svo út, að hér væri gerð krafa um fleiri en einn loftskeytamann á hverju skipi. Ég hefi nú skýrt það, sem einnig kemur fram í nál. okkar, að þó sagt sé að minnsta kosti einn loftskeytamaður, þá á það aðeins að tryggja það, að á skipinu sé einhver, sem með loftskeytastöðina kann að fara. Það er ekki krafizt nema eins loftskeytamanns á farþegaskipum okkar, svo það er bara út í loftið hjá hv. þm. að gera ráð fyrir fleiri en einum á flutningaskipunum. (MG: Það er fagmaður). Já, þetta er líka að vera fagmaður að því leyti, að hann á að kunna til þessa starfs, en þar sem hér er um flutningaskip að ræða, má hann jafnframt sinna öðrum störfum á skipinu.

Þá vildi sami hv. þm. halda því fram, að ekki væri hægt að fá hærri flutningsgjöld heldur en nú tíðkuðust. Um það atriði gætum við nú auðvitað lengi deilt. En eftir því sem ég bezt fæ séð af skrifum erlendra blaða, sem sérstaklega fjalla um siglingamál, þá lítur út fyrir, að flutningsgjöld fari hækkandi, og það er ekki ólíklegt, að það hafi áhrif einnig hér. Það mun vera sterk alda um það í hópi útgerðarmanna úti um lönd, að sameina sig „internationalt“ um að hækka farmgjöld, til þess siglingarnar geti þrifizt, eins og það er venjulega kallað, og það eru líkindi til, að það geti tekizt. Hv. þm. vill telja það hlægilegt, þegar stungið er upp á að athuga möguleikana fyrir því, hvort okkar skip gætu ekki fengið þau flutningsgjöld, sem þau raunverulega þyrftu fyrir rekstrarkostnaði. Ég verð að segja það, að ef við erum sammála um, að það sé nauðsynlegt fyrir tilveru okkar siglinga, og jafnvel okkar sjálfstæðis, að eiga okkar eigin skip, er þá ekki athugunarefni, að ríkið sjái um, að þau fái þær tekjur í flutningsgjöldum, sem þau þurfa fyrir eðlilegum rekstrarkostnaði?

Hv. þm. segir, að þó skipin skili fiskinum skemmdum, þá hafi farmsendendur vátryggingu fyrir skaðanum. En þó fiskurinn sé vátryggður, þá getur skaðabótakrafan í sumum tilfellum lent á þeim, sem flytur hann. Það er einnig nóg til að koma óorði á fiskinn okkar, ef hann skemmist á leiðinni, og máske öðru um kennt en farkostinum, sem flytur hann. Svo er ekki æfinlega hægt að segja um, hverjum það er að kenna, hvort það er skipunum að kenna eða einhverju öðru. Ég veit dæmi til þess, að skemmdir hafa orðið, sem ekki hefir verið hægt að fá bættar af þeim, sem vátryggt var hjá. Fiskurinn kannske brotnar í pökkunum og slagi kemur í hann, án þess þó skipið leki. Fróðir menn segja mér, að það hafi mikið að segja, hvernig gengið sé frá fiskinum og hvernig skipin séu útbúin. Veltur því mikið á að hafa góð skip til þessara flutninga og vel út búin, og það munn okkar skip vera.

Að síðustu minntist hv. þm. á það, að samkv. íslenzkum l. væri ekki heimilt að selja skipin út úr landinu; nefndi hann sem dæmi, að margir hefðu viljað selja togara, en ekki getað. Ég býst við, að það sé rétt hjá honum; sem fyrrv. ráðh. ætti honum að vera þessi mál kunnug. En ég hygg þetta stafi meðfram af því, að menn hafi viljað reyna að fá sér betri skip og losna við þau gömlu. Hv. þm. vildi láta líta svo út, að þetta sýndi, að það borgaði sig illa að eiga skip. Um það efni mætti vitanlega mikið tala, og gefst e. t. v. tilefni til þess síðar undir umr. um önnur mál hér í d. En ég vil drepa á það, að þó mönnum þyki ekki eins arðvænlegt og áður að eiga togara, þá er ekki því um að kenna, að útgerðin geti ekki borið sig. Hvað segir mþn. í sjávarútvegsmálum um þetta? Ég var núna að lesa þau ummæli eftir hana, að menn hefðu farið mjög ógætilega með fé útgerðarinnar, tekið það út úr útgerðinni og lagt það í skrauthýsi og ýmislegt þesskonar, svo væri komið sem komið er. Þetta er ekki því að kenna, að það sé óarðvænlegt að gera skipin út. Hér koma margar ástæður til greina, sem gera það að verkum, að mönnum þykir ekki eins arðvænlegt að gera út eins og áður. Stofnfé útgerðarinnar er búið að sólunda og skipin eru orðin gömul. Enginn getur borið á móti því, að togaraútgerðin íslenzka hefir skilað miklum arði. En hvert er hann kominn? (MJ: Útgerðin er nú búin að ala marga). Hún er líka til þess að menn lifi af henni, ekki aðeins „eigendurnir“, heldur einnig þeir, sem við hana vinna.

Enginn vill kaupa skipin, segir hv. þm. Þetta er rangt; ég hygg, að viljann vanti ekki, en það er víða þröngt um gjaldeyrinn nú á tímum. Ennþá er trúin á íslenzka útgerð ekki horfin, þó hún kunni að vera horfin hjá einstökum mönnum, sem hafa „spilað fallit “á þessu sviði. Það er til hópur manna í landinu, og hann ekki svo lítill, sem segir, að það borgi sig að kaupa ný og góð skip, en þar á meðal munu ekki yfirleitt vera þeir menn, sem við þennan rekstur hafa fengizt að undanförnu.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta efni frekar; ég hefi aðeins kastað þessu fram sem svari við því, sem hér hefir áður verið innlagt.

Þá vil ég segja nokkur orð til hv. frsm. minni hl., þm. N.-Ísf. Ég verð að segja, að mér fannst í ræðu hans, sem þó er útgerð skipa nokkuð kunnugur, kenna óþarflega mikils barlóms um það, að hér sé verið að leggja á útgerðina eitthvert ógurlegt ok með kröfunni um, að skipin hafi loftskeytastöð. Hv. þm. sagði, að okkur væri ekki kunn útkoman hjá þessum skipum. (JAJ: Ég sagði það ekki, því ég hefi einmitt kynnt mér útkomuna nokkuð). Það kom til umr. í n., hvort þeir framkvæmdarstjórarnir vildu ekki gefa okkur upplýsingar um þetta efni, en við fengum ekkert um það að sjá. Það er gamla aðferðin, að fela allt slíkt fyrir þeim, sem þeir ekki telja sína menn. Ég skal því ekki segja, hvernig útkoman er hjá því skipi, sem keypt var í ár, en útkoman hjá þeim, sem rekin voru síðastl. ár, hygg ég að hafi verið allgóð. Ég segi það ekki í því skyni, að ég sé að öfundast yfir því, heldur gleðst ég yfir því, hvað vel hefir gengið. Um útkomu þeirra skipa, sem keypt voru í ár, verður reynslan að dæma, en hún sannar ekkert út af fyrir sig, því ýmiskonar kostnaður leggst á útgerðina fyrsta árið, sem ekki verður til næsta ár. Hv. þm. segir, að það geti farið svo, að það borgi sig betur að gefa skipin heldur en verða við þeim kröfum, sem gerðar séu. Ég kalla þetta nú engin rök, að vegna viðbótarkostnaðar, sem nemur einum 4—6 þús. kr., borgi sig að gefa skipin út úr landinu aftur.

Um það atriði, hvað mörg skip hafa strandað og hvað mörg ekki strandað, þurfum við ekki að deila. Ég skal játa, að flestir þeir togarar, sem strandað hafa, hafa haft loftskeytatæki, og ef til vill hefðu þeir frekar getað bjargað sér frá strandi, ef þeir hefðu haft dýptarmæli. En þeir eru dýrir, kosta eitthvað 8—12 þús. kr. (MG: En rekstrarkostnaðurinn?). Hann er ekki nema rafmagnseyðslan, — það skal játað. En ég skal ekki fara út í það að sinni. hvað valdið hefir, að þessi skip hafa strandað. Það er sorglegra mál en það, að hægt sé að gera það að umræðuefni hér, og ég hygg, að í mörgum tilfellum hefðu engin tæki komið að gagni. Þó hafa loftskeytatækin orðið mannslífum að liði við strönd. Síðasta dæmið með Skúla fógeta strandið. Innan fiskimannastéttarinnar eru þessar tíðu strandanir orðnar svo mikið áhyggjuefni, að menn vilja sem minnst um þær tala opinberlega.

Ég held, að hv. þm. hafi misskilið mig, þegar ég var að tala um loftskeytastöðvarnar og talstöðvarnar. Ég sagði, að skip, sem þurfa að greiða 500 kr. leigu fyrir talstöð árlega, gætu greitt loftskeytastöð með því framlagi á 8 árum, miðað við 4000 kr. kaupverð. Og ég taldi líklegt, að loftskeytastöðvarnar mætti fá með afborgunum.

Ég ætla ekki að fara að telja upp allt, sem hv. þm. hélt fram. Hann sagði m. a., að það væri ónærgætni við þá, sem gera út þessi skip, að leggja á þá þær kvaðir, sem hér er um að ræða. Ég hefi tekið það fram áður, að fyrir mér vakir aðeins að auka öryggi íslenzkra farmanna. Og ef það er kölluð ónærgætni, þá á ég enga nærgætni til gagnvart þeim, sem skipin reka. Ég mundi krefjast þessa jafnt, hverjir sem í hlut ættu.

Örfáum orðum vildi ég beina til hv. 1. þm. Reykv. Hann benti á, að lítið væri af mönnum í yfirmannastétt skipa, sem kynnu að stjórna loftskeytastöðvum. Það má vera, að í hópi eldri farmanna hafi fáir þessa kunnáttu. En á meðal hinna yngri, sem lært hafa siglingafræði, eru þeir til, sem þetta hafa lært. Og ég veit um skip, þar sem sami maður er bæði stýrimaður og loftskeytamaður. Það má vera, að það sé erfitt fyrir menn á fullorðins aldri að læra að senda og taka á móti loftskeytum, en ég hygg þó, að það sé kleift. Það mundi vitanlega hafa einhvern kostnað í för með sér.

En hv. þm. skaut hér öðru fram, sem ég tel rétt að svara: Hvort fagfélag loftskeytamanna mundi ekki krefjast þess, að það yrðu menn úr sínum hópi teknir til að fara með loftskeytastöðvarnar á þessum skipum. Ég hefi borið mig saman við núv. stjórn loftskeytamannafélagsins, og hún kvað loftskeytamenn yfirleitt ekki myndu gera slíkar kröfur, ef aðrir menn lærðu þetta starf og gætu innt það af hendi. Þeir litu alveg eins og ég á þetta mál, að ef það væri tryggt, að yfirmenn skipanna kynnu að fara með stöðvarnar — og um það gilda reglur, sem ekki er hægt að ganga framhjá —, þá myndu ekki verða gerðar kröfur um, að félagsbundnir loftskeytamenn fengju þessi störf.

Þá minntist hv. þm. á, að það væri ein leið til að gera skipunum kleift að taka á sig þennan kostnað, sú, að lækka kaup þeirra, sem vinna á skipunum, eða fækka þeim. Ég vil nú upplýsa hann um, að á þessum skipum eru alls ekki fleiri menn heldur en nauðsyn krefur. Þó á norskum skipum séu örlítið færri menn, þá get ég sagt hv. þm., að um annað er ekki meiru deilt nú á meðal norskra farmanna og þeirra, sem ráða í þessu efni, heldur en það, hvað skipin eru illa mönnuð. Því er haldið fram, að öryggi skipanna sé jafnvel hætta búin af þessum sökum. Og ég get sagt frá sögu frá sjórétti Rvíkur út af sjóslysum á norskum skipum hér við land, að ástæðurnar hafa verið raktar til mannfæðar. — Hvað kauplækkun snertir, þá hygg ég, að hv. þm. sé mér sammála um, að kaupið geti ekki verið lægra en það er, a. m. k. hjá þeim lægra launuðu, og tel ég því með öllu útilokað, að hægt sé að ná þessum kostnaði upp á þann hátt.

Þá sagði hv. þm., að hér væri að gægjast upp niðurrifsstefna. Ég hefi aldrei heyrt, að það væri niðurrifsstefna, þegar um eitthvað er að ræða til uppbyggingar og fullkomnar mannkyninu. Hér er um að ræða að tryggja öryggi mannslífa og að gera mönnum á skipunum lífið ánægjulegra og vistlegra, með því að þeir geti haft samband við umheiminn. Ég skil ekki, hvernig er hægt að heimfæra það undir niðurrifsstefnu. Hér er ekki farið fram á að rífa neitt til grunna. En það kveður nú við, eins og svo oft áður frá þeim flokki, sem hv. 1. þm. Reykv. telst til, að allt, sem menn innan verkalýðsstéttarinnar fara fram á til þess að fegra og bæta líf verkalýðsins, sé niðurrifsstefna. Það heilir niðurrifsstefna, ef „lægri“ stéttirnar leyfa sér að fara fram á eitthvað af þeim gæðum lífsins, sem tilheyrir „æðri“ og efnameiri stéttunum.

Að síðustu minntist hv. þm. á alþjóðasamþykktir um þetta efni. Ég hefi áður skýrt frá því, að í alþjóðasamþykktum nær krafan um loftskeytatæki ekki nema til 1600 smálesta skipa og stærri, og e. t. v. ræður þar sú kreppa, sem að undanförnu hefir verið á sviði siglinga almennt. Því það er ekki eins og einhver hv. þm. sagði hér áðan, að öll skip hafi verið í gangi á undanförnum árum það hefir t. d. stór hluti af norsku flotanum legið í höfn á síðustu árum, og sömu söguna hafa flestar siglingaþjóðir að segja.

Viðvíkjandi alþjóðasamþykktunum er það að segja, að ég hefi það eftir greinagóðum manni, sem sjálfur sat fundinn í Madrid, og eins af skrifum, sem ég hefi í höndum, að þar voru það útgerðarmenn, sem komu því til leiðar, að markið var ekki sett neðar. Þó voru það fulltrúar nokkurra landa, þar á meðal Ameríku, sem kröfðust þess, að markið væri fært niður, og alkunnugt er, að hin vinnandi stétt um heim allan styður þær kröfur. Og gegn þeim verður ekki hægt að standa til lengdar, það getur ekki liðið á löngu, þangað til alþjóðasamþykktunum um þetta efni verður breytt. En hvers vegna eigum við að bíða eftir því? Mega Íslendingar ekki vera á undan í því að sýna vilja sinn til þess að auka öryggi farmannastéttarinnar? Þarf endilega að vera búið að því úti í löndum fyrst? Megum við ekki á einu sviði vera forgangsmenn? Ég álít, að íslenzka þjóðin ætti að sýna það, að hún kann að meta sjómannastétt sína, þar sem þjóðfélag okkar er ekki hvað sízt til fyrir hennar störf. Fáar þjóðir munu eiga eins mikið undir fiskveiðum og við Íslendingar, en þá er líka skylda okkar að stuðla að því öryggi, sem mögulegt er að veita þessari stétt þjóðfélagsins.