07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (4828)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er fátt eitt, sem ég þarf að svara. En mér þykir undarlegt, hvað hv. frsm. meiri hl. vill lítið tala um öryggið nú. Ég hefi bent á, að meira öryggi fæst með dýptarmæli en loftskeytum, þar sem langflestir skipskaðarnir verða við landtöku. Og fjöldi þeirra skipa, sem farizt hafa á undanförnum árum, hefir haft loftskeyti, t. d. togararnir. Ekki hafa loftskeytin bjargað þeim, en það hefði dýptarmælir í mörgum tilfellum gert. Þetta er mergur málsins. Og dýptarmæli gætu þessi skip fengið sér; það yrðu talsverð útgjöld í eitt skipti fyrir öll, en hitt, að þurfa að fara að koma fyrir loftskeytatækjum, gæti alveg reynzt ókleift kostnaðar vegna. Hv. frsm. meiri hl. talaði um þann gífurlega kostnað, að eiga að borga árlega 500 kr. í leigu fyrir talstöð. En hann horfir ekki í það, að láta skylda skipin til þess að kaupa 6000 kr. loftskeytatæki með 4500—5000 kr. rekstrarkostnaði, ef mannahald er talið með. Þessi 5 flutningaskip okkar, sem hér koma til greina, eru gömul og dýr í rekstri, kolafrek o. s. frv. Og hræddur er ég um, að samkeppnin leyfi okkur ekki að verða forgönguþjóð í siglingum meðan flutningaskipastóll okkar er ekki stærri og betri. — Það, sem hv. þm. sagði um fragttaxta, á við einn flokk flutningsskipa, tankskipin. Flutningsgjaldið með þeim mun hafa hækkað. En minni skipin munu nálega öll hafa getað haldið velli í samkeppninni við aðrar þjóðir.

Þá talaði hv. þm. um togaraútgerðina. Þar vil ég benda á skýrslu mþn. í sjávarútvegsmálum, sem sýnir, að togaraútgerðin hefir tapað ekki minna en 6—8 millj. á síðastl. 4 árum. Og ég kannast ekki við, að þar hafi verið lagt mikið fé í ónauðsynlegan kostnað. Ég get a. m. k. forsvarað það með félög þau, sem ég hefi verið með í á Vestfjörðum. Ég hefi verið viðriðinn tvö togaraútgerðarfélög þar, annað starfaði 1914—18, og urðu tekjurnar þá sæmilegar. En síðari útgerðin hefir gert meira en að gleypa þann gróða. Og þó var engu fé varið í að kaupa stöðvar eða annað slíkt. — Ég fékk í dag að athuga reikninga þeirra útgerðarfélaga, sem hér ræðir um, og er annað þeirra nýbyrjað. — Annað þeirra hefði verið mjög illa stætt, ef það hefði ekki orðið fyrir því fjárhagslega happi, að skip, sem það átti, strandaði. Það var vátryggt fyrir meira verð en það stóð félaginu í, og því græddi það á strandinu. Hitt félagið rétt berst í bökkum, og samt virtist mér á reikningum þess, að reynt væri eftir mætti að spara öll útgjöld, t. d. laun framkvæmdarstjóra. Og ég sannfærðist enn betur um það, að félög þessi mega ekki við miklum lögum.