07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (4829)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Út af ummælum hv. þm. N.-Ísf. um dýptarmælinn, vil ég benda honum á, að engin till. liggur fyrir um það, að skylda skip til að hafa dýptarmæla. Og ég vil ennfremur minna hann á, að öll skip eru skylduð til að nota lóð, þegar þau eru nærri landi. Þetta vitum við, sem erum gamlir sjómenn; okkur var kennt að nota lóðið í öllum þeim tilfellum, ef við héldum, að skipið væri nærri landi. Þessi skylda hvílir enn á öllum skipum okkar. Skipin þurfa því ekki að sigla í strand þess vegna, að þau hafi ekki tæki til þess að mæla dýpið. Dýptarmælir er mjög dýrt áhald. Ennfremur segja þeir, sem reynslu hafa af honum, að við meðferð hans þurfi allrar varúðar að gæta. Þetta ber yfirmönnum varðskipanna saman um, og ennfremur bendir reynslan af dýptarmæli í öðru strandferðaskipinu í sömu átt.

Afkoma þeirra tveggja félaga, sem hv. þm. talaði um, er lokuð bók fyrir velflesta, og er því lítið hægt um hana að segja. Þó hefir annað þeirra eignazt skip á árinu, og hlutabréf hins hafa stigið um helming eftir strandið á skipi þess. Margt bendir á, að afkoma þessara félaga sé ekki eins bágborin og hv. þm. N.-Ísf. vildi vera láta, og er það auðvitað ekki nema vel farið.