23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (4836)

84. mál, einkasala á fóðurmjöli og fóðurbæti

Jón Auðunn Jónsson:

Mér finnst, eftir þeim rökum, er hv. flm. bar fram, er hann talaði fyrir málinu, að hann hefði átt að snúa fyrirsögn frv. við og hafa hana: Frv. um útflutningsbann á innlendum fóðurefnum. Því öll rök hans gengu út á að sýna fram á nauðsyn þess að takmarka útflutninginn. Og það, sem hann las upp úr umsögn búnaðarmálastjórans, gekk einnig allt í sömu átt. Mér þykir það nokkuð einkennilegt, ef mikið er flutt inn af fóðurbæti, sem ekki kemur að gagni, og af þeim ástæðum þurfi að banna bændum að nota nema ákveðnar tegundir. En það er vitanlega mjög breytilegt, hvaða fóðurtegundir eiga við í hvert sinn, eftir staðháttum og annari aðstöðu. Þetta býst ég við, að bændurnir ættu sjálfir bezt að sjá og finna, og muni því ekki kaupa til lengdar ónýta vöru. Ég hefi nú sagt þetta til gamans, til að benda á ósamræmið í frv. og ræðu hv. flm.