23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (4837)

84. mál, einkasala á fóðurmjöli og fóðurbæti

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég verð að segja það strax, að ég er á móti þessu frv., eins og yfirleitt öllum einkasölufrv. En frv. er nú einu sinni komið fram, og þó ættarmótið sýni greinilega faðernið, verður að reyna að koma því svo fyrir, að það verði að sem beztum notum fyrir landbúnaðinn.

Það er sagt í 7. gr. frv., að einkasalan skuli jafnan hafa nokkurn forða af fóðurbæti fyrirliggjandi í Rvík. Þetta er að vísu gott, það sem það nær, en er algerlega ófullnægjandi fyrir mikinn hluta landsins. Ég mun því síðar koma fram með brtt. við frv., er miði að því, að ríkið sjái um, að alltaf verði allmikið af fóðurbæti fyrirliggjandi í Vestfirðinga- og Norðlendingafjórðungum, a. m. k. á 2 stöðum í hvorum. Á þann hátt gætu kostir frv. ef til vill vegið nokkuð upp á móti ókostum þess.