23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (4839)

84. mál, einkasala á fóðurmjöli og fóðurbæti

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Eins og þetta frv. liggur fyrir, er tilgangur þess sýnilega sá, að hafa það sem einn lið í þeirri stóriðju þingsins að draga verzlunina úr höndum einstaklinganna og koma henni undir ríkið. En svo berst hv. flm. í hendur plagg, sem fer alveg í öfuga átt, og rennur þá upp fyrir honum nýtt ljós, sem ræða hans snýst eingöngu um. Þá er það orðið aðalatriði, að innflutningur þessara vörutegunda sé orðinn óþarflega mikill — 500—600 þús. kr. árlega — og því þurfi ríkið að grípa inn í, til þess að skapa iðnað í landinu. Mér datt í hug gömul vísa, þar sem talað er um, að viss persóna ætlaði að fara að skapa mann. Jafnaðarmenn hafa ekki skapað svo mikla atvinnu. Þeim hefir farizt betur að skapa einokun í landinu. Hv. flm. sagði, að oft væru seldar illar vörur og duglegir sölumenn seldu meira en þörf væri fyrir. Það er svo að heyra, sem hv. flm. búist ekki við miklum dugnaði við söluna, þegar ríkið er búið að taka verzlunina í sínar hendur. Ég get nú verið hv. flm. samþykkur um það, svo langt sem það nær, en get ekki séð, að nein þörf sé fyrir frv. af þeim ástæðum. Það, sem vakað hefir fyrir höf. þessa skjals, sem hv. flm. las hér upp, er greinilega það, að honum er áhugamál, að rannsökuð séu þau innlend hráefni, sem líkur eru til, að hægt sé að vinna úr fóðurefni, og að fé fáist til slíkra rannsókna. Hv. flm. ætlast nú til, að við kostnaðarverð varanna sé bætt 2%, sem gangi til slíkra rannsókna. Ég hefði sannast að segja búizt við, að ekki veitti af þessum 10—15 þús. kr., sem talið er, að lagt sé á þessar vörur, í kostnað við verzlunina þegar hún er komin á hendur ríkisins. Í mesta lagi yrðu máske eftir 200—300 kr. til rannsóknanna. Og þetta gerir hv. flm. að aðaltilgangi frv. Allir munu geta tekið undir það, að æskilegt væri, að ekki flyttist jafnmikið inn af útlendum fóðurefnum og gert hefir verið undanfarin ár. En hvers vegna eykst salan stöðugt? Ég hefi ekki trú á, að það sé eingöngu fyrir dugnað seljendanna. Það mun fyrst og fremst vera fyrir aukna eftirspurn. En það mun vera algild regla, að því minna, sem lagt er á vöruna og hún seld ódýrara, þá eykst eftirspurn og sala. Það eru því engar líkur til, að þetta dragi úr innflutningi nema verzlunin færi svo illa úr hendi, að salan minnkaði af þeim ástæðum.

Þá kom hv. flm. inn á að tala um það, að þegar hafís lokaði höfnum á Norðurlandi, væri ekki lítils virði að hafa fóðurforða liggjandi hér í Rvík. Hverju eru Norðlendingar bættari, ef þeir fella skepnurnar úr hor, þó að nógar birgðir séu hér í Rvík? Hann talaði um kornforðabúr, sem einu sinni voru ráðagerðir um. En það var allt önnur hugmynd. Þau áttu að vera víðsvegar um landið. Hér er ekki farið fram á neitt slíkt. Ekki er heldur ráðgert að draga úr innflutningi þessara vara til landsins eða gera rannsóknir um innlendan fóðurbæti. Ég held því, að hann ætti að semja annað frv., sem væri í betra samræmi við ræðu hans. Það mundi fá annan byr.