23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (4847)

88. mál, yfirstjórn nokkurra ríkiseigna í Ölfusi

Flm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að þó að ég væri óánægður með það, sem hv. þm. gerði í þessu efni, þá sé það ekki nema eðlileg afleiðing af hans skoðunum. Ég skal taka það fram, að ég er honum þakklátur fyrir, að hann hefir gert minna að þessu en ýmsir vildu vera láta af þeim, sem stóðu að fyrrv. stj. En þó að hann verðskuldi hrós fyrir þetta, þá hefði hann þó átt meira hrós skilið, ef hann hefði getað staðizt þau vélabrögð, sem voru lögð hér fyrir hann.

Annars er ekki ástæða fyrir mig að fjölyrða um málið að þessu sinni. Ég geri ráð fyrir, að tækifæri gefist til þess að tala nánar um málið við hinar síðari umr. Þó er það eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Skagf., sem ég vil fyrst og fremst minnast á. Um þann mann, sem hv. þm. leigði þetta land, hefi ég svipað að segja og hann. Ég hefi persónulega mætur á Sigurði Sigurðssyni eins og hann, þó ég hefði ekki í sporum hv. þm. getað látið mér detta í hug að leyfa honum að spilla almennu hagsmunamáli. Ég álít, að Sigurður Sigurðsson eigi viðurkenningu skilið fyrir störf sín, en ekki á þann hátt.

Út af því, sem hv. þm. sagði um það, að fyrrv. eigandi Reykjakots hefði fengið leigðan blett hjá mér, vil ég taka fram, að það er ónákvæm frásögn hjá honum, sem líklega stafar af því, að hann veit ekki betur. Þegar ég samdi um kaup á jörðinni við Gísla Björnsson, eiganda hennar, setti hann að skilyrði að fá að halda eftir þessum bletti við ána, sem hann hefir. Þess vegna er þessi blettur nú persónuleg eign hans. Ég gat ekki fengið jörðina keypta með öðru móti, og ég vildi heldur ganga að þessu skilyrði en verða af kaupunum. En af því þetta er svona lítill hluti, þá hefir hv. þm. ekki athugað, að það er ekki eign landsins, og liggja til þess þær ástæður, sem ég hefi nú greint frá.