13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (4856)

88. mál, yfirstjórn nokkurra ríkiseigna í Ölfusi

Magnús Guðmundsson:

Ég vil leiðrétta þá missögn hjá hv. þm. S.-Þ., að Sjálfstfl. hafi verið á móti kaupunum á Reykjatorfunni. Málið kom fram hér í d. við 2. eða 3. umr. fjárl. og sætti ekki andmælum, en ég skal ekki segja, hvernig atkv. féllu hér. Í Nd. var till. samþ. án þess að brtt. kæmu fram við fjárlfrv. Það er því ranghermi, að Sjálfstfl. hafi lagzt á móti málinu.

Ég skal ekki fjölyrða um loforð hv. þm. S.-Þ. sem ráðh. við Sigurð búnaðarmálastjóra um leigu á landspildu þeirri, sem hér ræðir um, en Sigurður hefir nú staðfest skjallega, að hv. þm. S.-Þ. hafi gefið sér þetta loforð, og ég efast ekkert um, að hann segi það satt, og það mun enginn gera, sem þekkir báða mennina.

Hv. þm. er að gera sig breiðan út af því, að ég hafi leigt Reykjakot til lífstíðar. En þekkir hann þá ekki ábúðarlögin? Ábúandi krafðist samkv. ábúðarlögunum, að byggt væri yfir hann og hann fengi lífstíðarábúð, og samkv. lögum átti hann rétt á hvorutveggja. Hvernig stendur á, að hv. þm. minnist ekki á Kross og Velli í þessu sambandi, þar sem hið sama átti sér þó stað og um Reykjakot? (JJ: Hv. 1. þm. Skagf., þá hæstv. dómsmrh., gat vel farið í kringum þetta með ýmsu móti). Ég taldi það jafnan skyldu mína sem ráðh. að fara eftir lögunum, en ekki í kringum þau.

Hv. þm. er alltaf að staglast á 75 ára leigutíma á bletti þeim, sem Sigurður búnaðarmálastjóri hefir á leigu, en hv. 2. þm. Rang. hefir nú bent á, að þennan leigurétt er hægt að taka, hvenær sem ríkið þarf á landinu að halda. En hitt væri gaman að vita, hver skyldi kæra sig um að taka land þarna til ræktunar til eins árs í einu. Það myndi vitanlega ekki nokkur lifandi maður gera.

Annars er það alveg óðs manns æði að ætla sér að fara að telja mönnum trú um, að ríkinu stafi einhver hætta af þessum leigurétti S. S. á fáum ha. Hv. flm. upplýsti við 1. umr., að ábúandinn í Reykjakoti væri fús til þess að fara af jörðinni, svo að þá er alveg augljóst, að frv. er beint gegn S. S. einum. Þetta verður þó enn augljósara af þeirri brtt. flm. sjálfs, að ákvæði frv. nái einungis til þeirra samninga, sem gerðir haf, verið eftir að ríkið keypti þessar eignir. Allt, sem gert hefir verið af svipuðu tægi áður, á að fá að standa, svo sem samningar um sumarbústaðina, sem þarna eru, og því um líkt.

Frv. er því eingöngu beint gegn Sigurði búnaðarmálastjóra. Það er því næsta einkennilegt, að hv. flm. skuli vera að þakka n. fyrir afskipti hennar af málinu, því að n. leggur einmitt á móti því, að landið sé tekið af Sigurði. (JJ: Þegar ríkið þarf á því að halda). Það er tekið fram í samningunum og auk þess hefir ríkið ávallt heimild til að taka hvaða land sem er, ekki aðeins sitt, heldur annara. (JJ: Já. með lögum). Auðvitað.

Þá vil ég minnast lítið eitt á brtt., sem hv. flm. hefir flutt við frv. og n. hefir tekið upp. Það er dálítið eftirtektarvert, að hv. flm. skuli sjálfur vera orðinn svo óánægður með frv., að hann flytur við það stórfelldar brtt. Það ber ekki vott um grandgæfilega athugun frv.

Þessi brtt. hv. flm. er annars vel þess verð, að hún sé athuguð nánar. Samkv. henni á að leigja landið „allsherjarsamtökum verkamanna og samvinnufélaga“, eða m. ö. o. tveim stjórnmálasamböndum, Alþýðusambandi Íslands og S. Í. S. Ég held, að meiri hl. n. hefði átt að hugsa sig um áður en hann gerði sig beran að svona augljósri hlutdrægni.

Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Hér er aðeins um tilraun til einkahefndar að ræða gegn manni, sem hv. flm. telur, að hafi snúizt á móti sér í stjórnmálum. Jafnvel samherjum hans í allshn. er þetta ljóst.