26.10.1934
Efri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (4859)

98. mál, fávitahæli

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég tel óþarft að fjölyrða um það, hver vöntun er hér á fávitahælum. Hún er orðin að aðkallandi nauðsyn, sem er ekki einungis mannúðarmál, heldur og menningarmál.

Það segir sig sjálft, að í landi, sem hefir bæði fræðslulög og heilbrigðislög, fer afarilla á því, að þau börn þjóðarinnar, sem ef til vill hafa mesta þörf á skjóli laganna, fari þess svo mjög á mis sem raun er á með fávitana. Með hina brýnu þörf fyrir augum hefi ég hvað eftir annað talað máli þeirra hér á þingi, þó að málið hafi ekki fyrr verið borið fram í frv.formi. 1. gr. ber það með sér, að ekki er ætlazt til, að þetta hafi í för með sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð nú þegar, því að þar er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi ekki fram byggingarkostnað fyrr en efni leyfa. En þó að það kunni því miður að dragast eitthvað, er það álit mitt, að hagkvæmt og sjálfsagt sé, að þjóðin eignist lög um fávitahæli, þar sem grundvallað sé það starf, sem ríkinu ber skylda til að takast á hendur fyrr eða síðar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er þannig samið, að enda þótt ríkissjóður sjái sér ekki fært að leggja fram stofnkostnað í bili, getur hann samt orðið fávitunum að liði með því að hagnýta einkastofnanir eða stofnanir bæjarfélaga, þegar völ er á, og gefi með þeim þangað eftir gjaldskrá, sem ráðuneytið samþ. sjálft. Nú sem stendur er ekki nema um eina slíka stofnun að ræða, sem sé fávitahælið Sólheima, og það er ekki stærra en svo, að það rúmar aðeins 25. En hugsazt gæti, að einstakir menn kynnu að finna hjá sér hvöt til að koma upp slíkum stofnunum, og til að koma ákveðnu skipulagi á slíkar framkvæmdir og styrkja þær af þeim, sem af viti eru gerðar og fullnægja kröfum mannúðar og menningar, er það nauðsynlegt, að þess sé gætt þegar frá upphafi, að slík hæli vinni ekki hvert á móti öðru, og þessari starfsemi verði hagað þannig, að hún komi að sem mestum notum fyrir þá, sem helzt þurfa hennar að njóta.

Þess vegna tel ég það brýna þörf, að ákveðið verði með l., hvernig skuli hagað starfsháttum þeirra stofnana, sem þannig kynnu að koma upp í landinn, ríkisstj. hefði þar hönd í bagga með allt eftirlit og sjái um, að l. um fávitahæli yrði fylgt út í yztu æstar.

Á meðan landið sjálft getur ekki komið upp hæli fyrir fávita, er það óhæfilegt, að aumingjarnir, sem eiga manna bágast, verði að gjalda þess, þar sem önnur olnbogabörn þjóðfélagsins, svo sem geðveikir menn og mállausir, njóta mikilla hlunninda og styrks frá því opinbera.

Það skal játað, að þessum málum er ekki fullskipað fyrr en landið á sjálft slík hæli sem frv. gerir ráð fyrir, og að því ber auðvitað að stefna. En hvað getum vér látið fávitana og heimili þeirra, sem oftast verða hart úti vegna þeirra, bíða lengi án þess að nokkuð sé aðhafzt? Og slíkar stofnanir, sem hér um ræðir, koma ekki að tilætluðum notum nema með verulegum fjárstyrk ríkisins. Þjóðirnar, sem lengst eru komnar áleiðis í þessum málum, hafa skipað þeim á svipaðan hátt í aðaldráttum eins og segir í þessu frv., nema hvað þar er ennþá meiri aðgreining á fávitunum, þar sem mestur er fjöldinn. Það er því fengin marga ára reynsla fyrir þessu. Vitanlega var byrjunin oft erfið og í smáum stíl. Oftast voru það einstaklingar, sem hófu starfið. Stundum voru það konur, stundum efnalitlar (t. d. í Svíþjóð), sem sáu aumur á fávitunum og hófu starfið af mannkærleika. Með árunum og reynslunni greindist svo starfið í ákveðnar deildir, hver með sitt hlutverk, með tilstyrk ríkisins, eða alveg kostuð af ríkinu, eins og t. d. í Danmörk.

Það er unun að sjá, hversu vel þessum málum er komið t. d. hjá Dönum og Svíum, sem einna mest hafa lagt í sölurnar fyrir fávitana og lengst starfað að þeim málum, Danir í rúma hálfa öld. Nú getum vér Íslendingar haft dæmi og reynslu frændþjóðanna fyrir augum og lært af þeim. Og þótt efnahagur vor leyfi oss ekki neitt svipað því, sem þar gerist, — enda eru ástæður vorar að mörgu leyti ólíkar þeirra ástæðum —, þá getum vér þó reynt að feta í þeirra fótspor, eftir því sem efnin leyfa.

Það, sem hér hefir áunnizt í þessum efnum, er að vísu smátt, en sporið er þó stigið í rétta átt með þeim styrk, sem ríkið hefir lagt til fávitahælisins í Sólheimum og meðgjafar með 5 fávitabörnum, sem hefir orðið ákaflega mikils virði fyrir þá, er þess hafa notið. Mér er þetta spor meira en lítið gleðiefni, og ég vona, að fleiri svipuð fari á eftir, unz málefnum hinna fátækustu er komið í það horf, að sérhvert foreldri, sem á við það böl að búa að eiga slíkt barn, geti öruggt og ókvíðið kvatt þennan heim án allrar áhyggju um aumingjann sinn.

Ég ætla svo ekki að lengja frekar umr. um þetta mál. Ég veit, að allir hv. þdm. eru mér sammála um það, að hér sé um verulegt nauðsynjamál að ræða. Ég læt hvern og einn um það, hvort rétt sé að samþ. þetta frv., en benda vil ég á það, að það getur aldrei skaðað málið, heldur þvert á móti. Og ég vona, að ekki líði á löngu áður en ríkið verður það efnum búið, að það sjái sér fært að hrinda þessu mikla nauðsynjamáli í framkvæmd, svo að ekkert foreldri þurfi að kveðja þennan heim í ótta við það, að auminginn þess verði á klakanum. Ég vona, að hv. þm. komi saman um það, hvað sem allri flokkapólitík líður, að það er ömurleg tilhugsun, að slíkir aumingjar sem fávitar eru eigi sér hvergi varanlegt hæli, þar sem séð er fyrir þörfum þeirra, þegar foreldra og annara vandamanna missir við.