26.10.1934
Efri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (4863)

99. mál, bændaskóli

Flm. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Það hefir nú um skeið verið litið svo á meðal þeirra, sem bera fyrir brjósti hag og heill landbúnaðarins, að nauðsyn væri á því að auka nokkuð almenna búnaðarfræðslu við annanhvorn bændaskólann. Þeim hefir verið ljóst, að það nám og sú fræðsla, sem þar er að fá, er ekki einhlít, a. m. k. ekki fyrir þá, sem vilja verða frömuðir heima í sínu héraði, eða þá, sem taka að sér leiðbeiningarstarf fyrir búnaðarsamböndin og veita forstöðu stærri fyrirtækjum í búnaðarframkvæmdum. Búnaðarsamböndunum smáfjölgar, og þau ráðast í ýms sameiginleg fyrirtæki fyrir almenning, og eftir því sem þeim fjölgar, verður mönnum ljósara með hverju ári, að þörf er á færum mönnum til þessarar starfsemi. Þetta kallar á aukna fræðslu í búnaði við annan bændaskólann eða báða. Hvað snertir þá menn, sem eiga að leiðbeina og verða til fyrirmyndar í héruðunum, þá skiptir auðvitað mestu, að þeir séu gæddir hagfræðilegri dómgreind, svo þeir séu færir um að leiðbeina bændum í því, hvað borgar sig að gera og hvað ekki borgar sig að gera.

Þeir menn, sem hafa viljað afla sér meiri þekkingar og reynslu í búfræði en fáanleg er hér við bændaskólana, hafa ekki átt annars úrkosta en að fara á erlenda búnaðarháskóla, en nám þar er eins og kunnugt er of dýrt, miðað við þau kjör, sem staðhættir hér heima geta boðið þessum mönnum. Hinsvegar er það vitað, að hin erlenda fræðsla á ekki sérstaklega vel við íslenzka staðhætti og þær framfarir og reynslu, sem fengizt hefir í búnaði á síðari árum. Það virðist því kominn tími til að stofna til innlendrar, ódýrrar fræðslu fyrir þessa menn, sem líkur væru þó til, að gæti orðið eins notadrjúg og hið erlenda nám. Að bóklega náminu loknu virðist eiga bezt við, að nemendur fengju verklega fræðslu á tilraunastöðvum Búnaðarfél. Íslands og hjá fyrirmyndarbændum og ráðunautum félagsins bæði í búfjárrækt og jarðrækt. Ódýrasta fyrirkomulagið verður að koma bóklega framhaldsnáminu fyrir við annan bændaskólann, og hefi ég í grg. frv. nokkuð komið inn á það mál. Samkv. þeim upplýsingum, er ég hefi fengið, er ekki bein þörf á því að fjölga kennurum vegna þessarar viðbótar. Það er þegar þörf á því að bæta við kennara í íslenzkum fræðum við bændaskólann á Hvanneyri. Hefir skólastjórinn óskað þess, en það hefir ekki þótt fært að þessu. En ef það yrði gert, gætu hinir kennararnir tekið að sér kennslu í framhaldsdeildinni, svo kostnaður af henni þyrfti ekki að verða tilfinnanlegur. Með húsrúm ættu ekki að verða sérstakir erfiðleikar, ekki sízt ef sú heimild yrði notuð, sem gefin hefir verið til þess að einn eða tveir kennarar við skólann byggi sér þar nýbýli. Mér hefir þótt eðlilegra að leggja til, að þessi framhaldsdeild verði sett við skólann á Hvanneyri, fyrst og fremst fyrir það, að þar eru betri skilyrði fyrir verklegu námi en á Hólum. Vetur eru styttri þar, og verklega námið getur því byrjað fyrr og staðið lengur fram eftir haustinu, og því betri skilyrði til að kenna fjárræktarfræði þar úti í sjálfri náttúrunni heldur en á Norðurlandi. Auk þess ætti á Hvanneyri að geta orðið betri not af ráðunautum Búnaðarfél. Íslands til kennslu þar við og við. Jafnframt er þar dýralæknir í námunda, sem kennir þar hvort sem er, og eru það meðmæli.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.