27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (4869)

103. mál, vegalög

Flm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það hafa víst fleiri þá sömu sögu að segja og hv. þm. Dal., að sýslusjóðir eigi erfitt með að leggja vegi og halda við vegum. Hefir því í seinni tíð mikið verið að gert að koma ýmsum vegum í tölu þjóðvega, og fer frv. það, sem nú liggur fyrir, í þá átt. Þó frv. þetta sé lítið fyrirferðar, hefir það nokkuð mikið efni að geyma, því það kostar sjálfsagt nokkuð að laga þá vegi, sem um er að ræða.

Fyrsti vegurinn er Hellusandsvegur frá vegamótum austan Fróðárheiðar um Breiðavík til Hellusands. Með því að leggja þennan veg frá veginum kringum Snæfellsnesið fengist sjálfsagt öruggt vegasamband fyrir þetta kauptún, sem hefir nú um 600 íbúa. Þar er mikið um fiskafurðir, og kæmi það sér því vel bæði fyrir sveitirnar og kauptúnið að fá þetta vegasamband. Ég býst við, að fyrsti hluti vegarins verði nokkuð dýr, þar vantar einnig brýr, en parturinn kringum jökulinn er mjög ódýr. Ég tel, að þennan veg verði að leggja hið allra fyrsta að mögulegt er, því hann mun gera mikið gagn og verður auk þess sennilega vetrarvegur, a. m. k. nothæfur mestan hluta ársins. Í raun og veru er Fróðárheiðarvegur ekki nema sumarvegur, og hefði sjálfsagt verið betra að leggja veginn í kringum nesið til Hellusands í fyrstu, heldur en yfir Fróðárheiði, en nú er búið að gera þann veg, og síðast í sumar var unnið við hann, en sú leið er áreiðanlega ekki lengi fær fram eftir vetrinum.

Það er víða í Snæfellsnessýslu erfitt með samgöngur. Annar vegurinn í frv. er Grundarfjarðarvegur frá Stykkishólmsvegi um Helgafellssveit til Grundarfjarðar. Þetta er sjálfsagt nokkuð erfið vegarlagning, en ég álít samt, að hann eigi að leggja jafnskjótt og ríkissjóður hefir fé til þess. Grundarfjarðarbúar eru afskekktir og illt yfir landið að komast. Það er kannske ekki fullrannsakað, hvar þessi vegur ætti að liggja. Þessvegna er í frv. sagt „um Helgafellssveit“. Það hefir aðeins komið til mála að gera brú yfir örmjóan fjörð þarna á leiðinni, Hraunsfjörð, en við það styttist vegurinn mikið. En þetta er ekki fullrannsakað. Þá er hér um svipaða till. að ræða og hv. þm. Dal. flytur um Skógarstrandarveg, og get ég látið við það sitja, sem hann hefir sagt. Ég álít, að þarna þurfi ekki nema eitt frv. að. samþ., og mun hv. samgmn. sennilega athuga möguleikana fyrir því að fella þau saman.

Þá er Heydalsvegur, frá Stykkishólmsvegi um Heydal að Bíldhóli á Skógarströnd. Þetta er mjög stutt leið. Mér er sagt, að þarna sé snjólaust langt fram á vetur, og jafnvel allan veturinn. Þessi stutti vegur hefir mjög mikla þýðingu fyrir Skógstrendinga, og hefir þegar nokkur hluti vegarins verið ruddur. Ég geri ráð fyrir, að margar þessar vegagerðir verði framkvæmdar á þann hátt, að vegirnir verði ruddir, eins og víða á sér stað hér á landi, þar sem verið er að koma héruðum í akvegasamband. Síðar, þegar ástæður leyfa, verður svo bætt um þessa vegi.

Þá er hér í frv. Köldukinnarvegur, sem hv. þm. S.-Þ. er nú kunnugri en ég. Ég tel víst, að vegur þessi sé nauðsynlegur og að hann sé kominn hér í frv. af sömu ástæðu og hinir, sem sé þeirri, að sýslan eigi erfitt með að leggja fé til hans.

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. fari til hv. samgmn., og treysti henni til að athuga vel allt, sem mælir með þessu frv. Ég mælist því til þess, að frv. verði vísað til samgmn.