01.11.1934
Efri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (4871)

121. mál, fangelsi

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er í raun og veru flutt af fjvn. Sþ. Þegar n. fór að fara í gegnum fjárl., kom það í ljós, að ýms erindi lágu þar fyrir um fjárframlög til fangelsa. Og þar sem engin l. eru til um þetta efni, þótti n. rétt að flytja nú frv. um, á hvern hátt þessum kostnaði skyldi fyrir komið, hvaða aðilar skyldu greiða hann. Það varð ofan á í n. að skipta þessum kostnaði á milli kaupstaða og kauptúna og ríkissjóðs, þannig, að kaupstaðir og kauptún greiddu helming kostnaðarins og ríkissjóður helming á móti. Þetta var þannig hugsað með tilliti til þess, að löggæslustarfið hvíldi bæði á kaupstöðum og kauptúnum, og auðvitað á ríkissjóði líka.

Ég ætla, að ekki þurfi mörg orð um nauðsyn þessa máls. N. býst við, að ómögulegt sé að halda uppi góðri löggæzlu í kaupstöðum og kauptúnum án fangelsa, en víða á þessum stöðum er það svo, að annaðhvort eru engin fangelsi til, eða þá að þau eru svo aum, að ekki er hægt að setja þar inn ölvaðan mann, eða aðra, sem brotið hafa lög. Það er tilætlun n., að í hvers árs fjárl. verði tekin upp einhver upphæð í þessu skyni, sem stj. svo úthlutar eftir þeim reglum, sem settar eru hér í þessu frv.

Jafnvel þótt að vissu leyti megi segja, að þetta mál sé komið frá n., þá þykir mér samt réttara, af því að frv. er samið í flýti, að því verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.