16.11.1934
Efri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í C-deild Alþingistíðinda. (4914)

151. mál, friðun náttúruminja

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og getið er um í grg., er frv. þetta flutt af allshn. að tilhlutun forsrh. Efni þess er það, að rétt þykir að setja sérkennilegar náttúruminjar undir eftirlit hins opinbera, til varnar því, að þær verði af vangá skemmdar eða eyðilagðar. N. hefir ekki getað athugað frv. nógu vel ennþá, og áskilur sér rétt til þess að koma fram með aths. hér við frekari meðferð málsins í d., en hinsvegar þótti ekki rétt að draga það að flytja frv., þar sem orðið er áliðið þings. Ég sé ekki ástæðu til að vísa því formlega til allshn., því að hún mun halda áfram að athuga málið.