29.11.1934
Efri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (4922)

151. mál, friðun náttúruminja

Magnús Jónsson:

Ég held, að það væri jafnvel ástæða fyrir hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá, svo að maður sæi brtt. prentaðar. Ég er ákaflega hræddur um, að það þurfi að athuga málið betur áður en það fer út úr d.

Ég er út af fyrir sig hlynntur l., sem fara í þessa átt, eins og sjá má af því, að ég hefi á 2 undanförnum þingum flutt frv. um þessi mál. Ef menn vilja bera það frv. mitt saman við þetta frv., er það ákaflega miklu víðtækara og skýrara. Og mér finnst satt að segja stappa nærri, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé hrein vitleysa, eða a. m. k. sé fjarstæða að samþ. það eins og það er nú. Í 1. gr. stendur, að ráðh. eigi að láta semja skrá yfir alla muni, landsvæði, ár, vötn og fossa o. s. frv., sem honum þykir líklegt, að innlendir eða erlendir ferðamenn vilji sjá. En hér eru engar reglur til að fara eftir. Þetta er þó svo stórbrotið og stórkostlegt, að full ástæða sýnist til að setja um það einhverjar reglur. Þegar þetta er komið á skrá, er það fallið undir ráðuneytið og alveg á valdi ráðh., og má enginn nytja þessa hluti eða hrófla við þeim án hans leyfis. Undir þetta geta fallið stórar ár, t. d. Sogið, það er mjög fallegt, og Þjórsá. Einnig Esjan og þannig mætti halda áfram að telja. Ef ráðh. hefir látið semja skrá um þetta og hirt hana í Stjtíð., má ekki hagga við því eða hrófla, og varðar brot á því 500—10000 kr. sekt, sé það bætanlegt með peningum, annars allt að 2 ára betrunarhúsvinnu. En hér eru ráðh. ekki settar neinar reglur eða það skilgreint nánar, hvernig þetta skuli framkvæmast. Ég vil minna hv. þdm. á frv. það, sem ég hefi flutt hér áður, og benda á, hvort ekki sé hér um svo stórt mál að ræða, að ástæða væri til að skipa t. d. 5 manna n., sem áhuga og þekkingu hafa á þessum málum, sem athugaði þetta allt nánar og gerði tillögur um, hvernig með skyldi fara. Ef friðunarn. þykir svo rétt að friða eitthvert ákveðið svæði, gerir hún grein fyrir, hvað stórt það þurfi að vera, hvað kostnaður muni verða, og athugar, að friðunin rekist ekki á annara réttindi. N. sendir svo ráðuneytinu álitsgerð og till., og ef ráðh. er þeim ekki mótfallinn, þá staðfestir hann þær. Þó skal það tekið skýrt fram, ef kostnaður fylgir slíkum ráðstöfunum, að tryggt sé, að nóg fé liggi fyrir til þess að greiða með, ef um eignarnám eða skaðabætur er að ræða. Einnig til þess að greiða þann árlega kostnað, sem leiðir af því að framkvæma friðunina.

Í 7. gr. þess frv., sem ég flutti, er tekið fram, að sé bætta á, að staður verði fyrir skaða eða skemmdum, megi gera bráðabirgðaráðstafanir þar til friðunarn. hefir gert álitsgerð og ráðh. staðfest með úrskurði. Finnst mér þannig gengið frá því frv., sem hér liggur fyrir, að óverjandi sé að samþ. það. Nú er það einnig auðséð, að hv. n. hefir farið að hika við, og sennilega hugsað, að það væri nú kannske fulllangt gengið, að ráðh. þyrfti ekki annað en telja upp og láta setja á skrá fallvötn og fossa o. s. frv., og þá sé það orðið öllum óheimilt til allra nytja. Og mig skal ekkert undra, þó hv. n. hafi hikað ögn við slíka ráðstöfun. Í 6. gr. sama frv. er gert ráð fyrir, að staður, sem af einhverjum ástæðum missir gildi, sé tekinn af skrá og leystur undan friðun, eftir till. friðunarnefndar. En mér skilst, að hér megi setja á skrá hvað sem dómsmrh. sýnist. Það var á sínum tíma lengi deilt um friðun sjálfra Þingvalla og sett um hana sérstök lög. En nú er borin fram skrifl. till., og þarf ekki annað en setja nafn staðarins á skrá og birta það í Stjtíð. — Ég vildi aðeins vekja athygli hv. þdm. á þessu; og þó að ég sé málinu hlynntur, finnst mér ekki vansalaust fyrir þessa hv. d. að láta það fara frá sér í þessu formi.