28.11.1934
Efri deild: 49. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (4932)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Sigurjón Á. Ólafsson:

Eins og sjá má á þskj. 591, hefi ég skrifað undir nál. með fyrirvara, og skal ég nú skýra frá því, í hverju minn fyrirvari er fólginn. Það er vegna þessa ákvæðis í 10. gr. frv., þar sem bæjarstj. Siglufjarðar er heimilað að leggja 100% aukavörugjaldi til þess að standast tekjuhalla bæjarsjóðs. Meiri hl. n. hefir tekið þann kost að láta þetta gilda fyrir eitt ár, og er ég ósamþykkur þessu ákvæði. Ég sé ekki, að það sé hægt að gera svona ráðstafanir til þess að heimila tekjustofna án þess að rannsaka, hvernig bæjarsjóður ætlar að tryggja sér þetta gjald, án þess að það komi niður á nauðsynjum almennings. Það mun nú vera í ráði hjá Siglufjarðarkaupstað að leggja þetta gjald sérstaklega á þungavöru, svo sem kol og salt, og á vörur, sem tilheyra aðalatvinnurekstrinum þar, síldarútgerðinni. Þó að gjald þetta sé ekki hátt samkv. ákvæðum reglugerðarinnar, þá skýtur þó hér skökku við, að um leið og verið er að létta sköttum af síldarútveginum, þá er tekið með annari hendinni það, sem er gefið með hinni. Það er á móti grundvallarskoðun minni, að bæjarsjóðir afli sér tekna á þennan hátt, og sízt að einstök bæjarfélög séu tekin út úr. Ég sé, að í hv. Nd. er frv. viðvíkjandi Akureyrarkaupstað, sem fer í svipaða átt, og eru þá 3 bæir komnir inn á þessa braut. En þá eru eftir aðrir bæir, og ætli Rvík teldi ekki réttmætt að fá slík fríðindi? En ef svo langt væri gengið, þá hygg ég, að raddir myndu heyrast á móti þessari stefnu. Ég hefi ekki borið fram brtt. við þessa umr., en mun koma með hana við 3. umr., um það, að fella niður þetta ákvæði. Ég tel líklegt, að þetta ætti frekar heima í sérstökum lögum, sem ættu þá að vera fyrir öll bæjarfélögin í einu. Ég tel ekki þörf að fara frekar út í þetta.

Það hefir verið bent á, að Siglufjörður ætti hér sérstöðu, þar sem hann hefði núna nýlega beðið svo mikið tjón af ofviðri. Það verður auðvitað að bæta á einhvern hátt, og tel ég líklegt, að ríkissjóður taki á sig eitthvað af því. En viðvíkjandi þeim mannvirkjum, sem einstaklingar eiga, þá tel ég, að þeir verði sjálfir að halda við sínum mannvirkjum. Ég er ekki kunnugur á Siglufirði, en ég býst við, að hann sé ekki það verr stæður en aðrir kaupstaðir, að ástæða sé til að veita honum þessi sérstöku fríðindi.