28.11.1934
Efri deild: 49. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (4937)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er rétt, sem hv. 10. landsk. benti á, að það er kirkjujarðasjóður, sem á þessa eign, en ekki prestlaunasjóður, og mun verða athugað til 3. umr. að breyta frv. í því sambandi.

Menn hafa talað um, að með þessu sé leyft að skattleggja fleiri en bæjarbúa sjálfa. Það er vissulega rétt, en það er gert nú með því að leggja vörugjöld á vörur, sem fluttar eru til hafna, jafnvel fyrir aðra en íbúa bæjanna, og sé ég ekki mun á því, hvort vörugjaldið hækkar um helming og það sé látið renna í hafnarsjóð eða hækka það um helming og sá viðauki sé látinn renna í bæjarsjóð. Það kemur alveg í sama stað niður fyrir þá, sem eiga að greiða þetta gjald.