20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (4953)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég get ekki séð, að það þurfi að tefja fyrir málinu, þó brtt. á þskj. 895 séu ekki teknar aftur. Það er þannig lagað, að í frv. eru — eftir því sem mér skilst — gerðar 3 breyt. á núgildandi hafnarlögum fyrir Siglufjörð, l., 2. og 10. gr. þeirra. Í l. gr. eru ákvæði um, að veita skuli 50 þús. kr. úr ríkissjóði næstu 4 ár. Hér er um að ræða endurveitingu, því þetta er í gildandi fjárl. Sama er um 2. gr. frv., er í felst ábyrgðarheimild handa ríkissjóði á 400 þús. kr. Þar er líka um endurveitingu að ræða.

Ég hefi ásamt hv. 6. þm. Reykv. borið fram brtt. við báðar þessar gr. um það, að í þær sé bætt til skýringar orðunum „til öldubrjóts á Siglufjarðareyri“ í svigum. Við viljum, að þetta sé tekið fram til samræmis við það, sem hefir verið í fjárlögum, svo ekki sé um að villast, að fjárveitingin sé til öldubrjóts.

Í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir, að bæjarstj. sé heimilt að hækka núverandi vörugjald um 100%. Við þessa gr. frv. hefi ég ásamt hv. 6. þm. Reykv. borið fram brtt. um það, að á eftir orðunum „almennum lögum“ komi: „þó ekki lengur en árin 1935 og 1936“. Menn minnast þess, að hér á þinginu lá fyrir frv. um slík gjöld frá hv. þm. Ak., en þar var farið fram á heimild fyrir lengri tíma. Nú viljum við hv. 6. þm. Reykv. ganga inn á, að Siglufjarðarkaupstað sé heimilt að hækka vörugjaldið um 100%, þar til öðruvísi verður ákveðið með lögum, t. d. sett lög um hæfilega gjaldstofna fyrir bæjarfélögin, auk útsvara. En við viljum ekki binda þetta yfir lengri tíma en árin 1935 og 1936, og þetta er gert alveg með sérstöku tilliti til þess, að Siglufjörður hefir hlotið tjón af ofsaveðri því, sem nýlega gekk yfir Norðurland, braut þar bryggjur, eyðilagði hús kaupstaðarbúa og matvæli o. s. frv. Er því greinilegt, að gjaldstofnar bæjarsjóðs hafa rýrnað mjög og nauðsynlegt er að fá nýja tekjustofna fyrir bæinn. Við leggjum því til, að frv. sé samþ. með þessum brtt. Eins og sést á þskj. 883, er n. öll sammála um að samþ. frv., en nm. hafa óbundnar hendur um að bera fram brtt. En ennþá eru það aðeins við tveir, sem orðið höfum til þess. Ég tel brtt. okkar skaðlausar, en þær eru sumpart til þess að ákveða greinilegar og sumpart til aukins öryggis um hæfilegt vörugjald. Vona ég, að hv. deild samþ. frv. með brtt. okkar.