20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (4956)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég vil leiðrétta misskilning, sem fram kom hjá hv. þm. Ak. viðvíkjandi afstöðu hv. þm. Ísaf. og annara sjútvnm. til þessa frv. Hv. þm. undraðist það, að hv. þm. Ísaf. skrifaði undir nál. án fyrirvara, en ef hv. þm. hefir lesið nál. og athugað það, þá sér hann, að allir nm. áskilja sér rétt til þess að bera fram brtt. við frv., og það er ennfremur tekið fram, að það séu aðallega ákvæði 1., 2. og 10. gr., sem þeir vilji breyta. M. ö. o., nál. segir ekki annað en að nm. séu sammála um að leyfa Siglufirði að fá staðfestingu á núv. hafnarlögum, en þeir vilja hafa óbundnar hendur viðvíkjandi breyt., sem frv. gerir á núv. hafnarlögum. Í þessu liggur vitanlegu sterkari fyrirvari heldur en þótt hv. þm. Ísaf. hefði skrifað undir nál. með fyrirvara. Ég veit, að hv. þm. Ak. er svo glöggur maður, að hann skilur þetta.

Við hv. 6. þm. Reykv. höfum borið fram nokkrar brtt. við þessa umr. Þær ganga í þá átt, að við viljum samþ. 1., 2. og 10. gr. frv. næstum óbreyttar. Við vildum, að það kæmi greinilega fram, að heimildin til að hækka vörugjaldið samkv. 10. gr. sé tímabundin.

Hv. þm. Ak. hneykslaðist á því, að ég álít, að hækkun bæjargjalda á Akureyri sé ekki tímabundin. Það er rétt, að hv. þm. fór fram á það, að þetta gilti til ársloka 1937. Mér finnst þetta of langur tími. Ég vona, að næsta eða næstu þing geti gengið frá gjaldstofnum bæjarfélaga yfirleitt fyrir langan tíma, svo að það er óþarfi að binda nú á þessu þingi heimild fyrir bæjarsjóði til þess að heimta tekjur með vörugjaldi til svo langs tíma eins og til ársloka 1937.

Mín afstaða í þessu máli er sérstaklega mörkuð af því, að ég álít, að Siglufjarðarkaupstaður hafi orðið fyrir miklu tjóni af náttúrunnar völdum, á bryggjum, húsum og matvælum, svo að gjaldþegnar kaupstaðarins séu síðan miklu lélegri gjaldstofn en hingað til hefir verið á þessu eina sviði, sem kaupstaðurinn hefir heimild til þess að nota þar, sem sé útsvarskröfur, Þess vegna tel ég fulla ástæðu til þess að mæla með því, að kaupstaðnum sé bætt þetta tjón upp, eftir því sem unnt er.

Aðeins frá þessu sjónarmiði vil ég ganga inn á þetta, þó ég álíti hinsvegar ekki rétt að ganga inn á þá leið, að ákveða nú nýjan gjaldstofn fyrir bæjarsjóðinn, án þess að taka tillit til þeirra tekjuöflunarlaga, sem nú gilda fyrir ríkissjóð sjálfan, svo að hægt sé að hafa samræmi milli þess, hvernig ríkissjóður krefur þegnana um gjöld, og hvernig bæjarsjóðir gera það.

Ég tel sérstaka ástæðu fyrir hendi í þessu tilfelli til þess að veita Siglufjarðarkaupstað hjálp, svo að hann geti komið áfram því nauðsynjamáli sínu að ljúka við lagfæringu á öldubrjót á Siglufirði.

Við tökum aftur till. okkar til 3. umr. eftir áskorun.