10.12.1934
Efri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (4966)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Magnús Jónsson:

Ég vildi aðeins spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvers vegna samkomudagur Alþ. hefir verið ákveðinn svona seint. Eins og kunnugt er, hefir verið mikið um það deilt, hvaða tími væri heppilegastur fyrir þingtíma, og hefir verið hringlað með hann undanfarin ár. Annars virðist það vera nokkuð sameiginlegt álit manna, að vetrartíminn stuttu eftir nýár sé heppilegasti tíminn. Fæstir, sem setu eiga á þingi, eru þá mjög bundnir við störf, en gallinn á því hefir þó þótt sá, að reynslan hefir verið sú, að þingið hefir jafnan dregizt langt fram á vor, og er það mjög óheppilegt. Það, að þingið hefir ekki verið ákveðið fyrr en þetta, býst ég við að stafi af því, að það hefir verið óskað eftir, að nokkurt yfirlit gæti fengizt yfir afkomu næsta árs á undan áður en fjárl. eru samin. En mér finnst það eðlilegt, að sem minnst sé að því gert að fresta samkomudegi Alþ., þó ekki verði komizt hjá því að gera það að einhverju leyti, og vil ég því spyrja þann hæstv. ráðh., sem hér er staddur, hvers vegna ekki var hægt að ákveða t. d. 1. marz, og hvort hann áliti ekki hættu á því, að þinghaldið dragist fram á vor, ef samkomudagurinn er ekki ákveðinn fyrr en 13. marz.