10.12.1934
Efri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (4968)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Þorsteinn Þorsteinsson:

Áður en frv. þetta verður afgr. héðan úr d., vildi ég láta mína skoðun í ljós með örfáum orðum. Ég er þeirrar skoðunar, að haustþing sé heppilegast. Það hafa áður komið fram raddir um það, að til þess að hægt sé að fá sæmilega fjárl.áætlun sé heppilegast að verá sem næst áramótunum, og hvað snertir ástæður þm. utan af landi, þá hygg ég, að flestum þætti haustþingið þægilegast. En það hefir komið í ljós á þessu þingi, að tíminn er of naumur frá 1. okt. til jóla, en ef samkomudagurinn væri t. d. 20. sept., ætti að mega ljúka þinginu á þeim tíma. Það hefði mér þótt langæskilegasti þingsetutíminn, en úr því það fæst ekki, þá ætla ég, eins og hv. 1. þm. Reykv. minntist á, að heppilegast sé fyrir flesta þm., að þingið hefjist sem fyrst upp úr áramótum. Ég skil reyndar, að það sé erfitt fyrir stj. að vera búin að undirbúa næsta þing á svo stuttum tíma sem er frá nýári til 15. febr. En færi svo, að eitt þing yrði næsta ár og því yrði lokið í vor, þá teldi ég alveg sjálfsagt að sjá svo um, ef haustþing fæst ekki, að byrja á þinghaldi sem fyrst eftir áramót, t. d. um 20. jan., eins og stundum hefir verið. Ég fyrir mitt leyti gæti að mörgu leyti fellt mig bezt við það, eins og nú horfir við, að þinginu, sem saman kemur seinni partinn í vetur, yrði frestað, og því svo lokið að hausti. Þetta hefir vitanlega sína ókosti. Það verður dýrara, þar sem ferðakostnaður þm. verður meiri. Það verður kannske ekki eins heppilegt að gera hlé á þingstörfum eins og að halda þeim óslitið áfram. En ef Alþ. á framvegis að byrja 15. marz — (MG: Frv. er aðeins miðað við þetta eina ár). Ég veit það, en ég á við það, að ef ætti að kalla þing saman á þessum tíma áfram, þá væri ég mjög óánægður með það.