11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (4985)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Jón Sigurðsson:

Það er þegar búið að taka ýmislegt fram af því, sem ég ætlaði að segja. Þó vil ég taka það fram, að þegar ég kom suður til Rvíkur í haust, þá gerði ég í huga mínum ráð fyrir, að sú regla yrði tekin upp að halda þing á haustin. Mér er kunnugt um það, að víðsvegar um sveitir landsins gera menn ráð fyrir þessu. Ég varð því fyrir vonbrigðum, þegar ég varð þess var, að þetta er ekki meiningin, heldur þvert á móti að fara að halda þing seinni partinn í vetur. Ég sem bóndi get lýst því yfir, að ég tel haustið bezta tíma, sem völ er á til þinghalds. Og svo er um fjölda bænda um gervallt land.

Aftur á móti er þessi tími, sem ákveðinn er í frv., svo óheppilegur, að það getur varla farið hjá því, að með þessum samkomudegi standi þingið fram í miðjan júní. Eins og hv. þm. Borgf. tók réttilega fram, þá er þetta einhver allra versti tími, sem til er fyrir bændur. Mér liggur við að segja, að með þessu móti yrðu þeir bændur, sem sæti eiga á hv. Alþ., útilokaðir frá þingsetu.

Ég get ekki séð, að það sé á fullum rökum reist, að þingið geti ekki byrjað á haustin yfirleitt, eins og síðastl. haust. Á haustin er vafalaust bezt að afgreiða fjárl. Það er einu sinni venja, sem venjulega er nokkurn veginn fylgt, að þegar fjárl. hafa verið afgr., þá er litið svo á, að aðalstarfi þingsins sé lokið og að þau mál, sem þá er eftir að afgr., séu yfirleitt ekki svo aðkallandi, a. m. k. ef komið er að endanlegri afgreiðslu þeirra, að þau mættu ekki bíða næsta haust.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. sagði, að það væri sök okkar sjálfst.manna, hversu lengi þingið hefði staðið og hve afgreiðsla mála hefði gengið illa, vil ég aðeins segja það, að mér skilst, að hann kjósi helzt að binda fyrir munn andstæðinganna, til þess að þeir geti ekki látið skoðun sína í ljós.