11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (4987)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Ólafur Thors:

Hv. 6. þm. Reykv. hefir nú að mestu tekið af mér ómakið og sagt það, er ég vildi mælt hafa, bæði um sjálft málið, samkomutíma Alþingis, og ræðu hæstv. forsrh.

Ég tel, að tvennskonar þingtími komi til greina, að annaðhvort sé háð haustþing eins og nú, eða þá að þingið hefjist svo snemma vetrar, að því geti jafnan verið lokið fyrir miðjan maí, eða 20. maí í síðasta lagi. Sjálfum stendur mér persónulega á sama um, hvor tíminn er valinn.

Ég hefði getað látið þetta mál afskiptalaust, ef hæstv. forsrh. hefði ekki komið með þá slettu til Sjálfstfl., að hann ætti sök á því, hve þingstörfin gengju illa. Það er annaðhvort, að hæstv. forsrh. gengur hér blindandi til verks, eða hann er ósvífinn í meira en meðallagi. Allir vita það, að andstöðuflokkar stj. eru í meiri hl. meðal þjóðarinnar, en stjórnarflokkarnir í minni hl. Og nú á að banna fulltrúum þjóðarmeirihlutans að tala á þingi, og það þrátt fyrir það, að þau lagafyrirmæli, sem stj. leggur fyrir þingið, eru með þeim einsdæmum, bæði að efni og frágangi, að hverjum manni hlýtur að blöskra. Ef hæstv. forsrh. er enn óljóst, hvað hér er að gerast, skal ég benda honum á það í fáum dráttum. Það er verið — og þegar búið að nokkru leyti — að draga innflutningsverzlunina að mestum hluta úr höndum þeirra einstaklinga, sem hingað til hafa rekið hana, og svipta þannig fjölda manna atvinnu og framfærslumöguleikum, þrátt fyrir eindregin mótmæli verzlunarstéttarinnar og þrátt fyrir það, að fullvíst er, að þessi verzlun er á allan hátt verr komin í höndum ríkisins. Og auk þessa hafa stjórnarflokkarnir ráðizt inn á hin viðkvæmustu svið einkarekstrarins, fiskverzlunina, sem hagur allrar þjóðarinnar og ríkissjóðs er undir kominn. Og svo langt er gengið í niðurrifsstarfseminni, að stjórnarflokkarnir hafa látið sér sæma að bera fram nýtt frv. um einkasölu á síld, þrátt fyrir milljónatöp hinnar gömlu einkasölu, sem ríkið er nú af veikum mætti að greiða.

Ég tel, að Sjálfstfl. sé miklu fremur ámælisverður fyrir það, að hafa ekki notað sér, meira en hann hefir gert, rétt sinn til gagnrýni á afglöp og ósvífni stj. Það má vel vera, að sjálfstæðismenn hafi talað mest á þessu þingi, en þeir hafa líka talað mest af viti.

Það er annars engu líkara en að hæstv. forsrh. haldi, að þegar hann varð ráðherra, hafi forsjónin komið í hans eigin gervi norðan af Hornströndum, kannske komið við í Hriflu í leiðinni, og sezt í stól forsætisráðherra. Það er engu líkara en að hin unga stjórn ætli sér í einni svipan að leysa öll þau vandamál, sem hingað til hafa hvílt á herðum margra og þar til bærra einstaklinga. Og ef þjóðin á til lengdar að búa við þá ógæfu, að sá maður sé í stjórnarforsæti, sem þar er nú, þá held ég, að ekki geti hjá því farið, að hann læri það, að það er ekki hygginna stjórna háttur að ætla sér að umturna í einu vetfangi atvinnu- og verzlunarháttum þjóðarinnar og tryggja framgang mála sinna með því að beita andstæðingana ólöglegu ofbeldi.