11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (4993)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Hannes Jónsson:

Það er víst tilgangslaust að ræða þetta mál, því að það mun vera fyrirfram ákveðið af stj.flokkunum, hvernig því verður hagað, og líka það, hvort þing verður haldið aftur að hausti. Þeir hafa reyndar ekkert ákveðið svar gefið í því efni, og hefir verið látið heita svo, sem það færi eftir því, hvernig næsta þing ynnist. Ég hefi ekkert svar getað fengið þessu viðvíkjandi, utan það, sem lesa má út úr orðum hæstv. ráðh., en ekkert hefir þó verið látið uppi um það, hvernig störfum þingsins skuli háttað, svo að ekki valdi óþarfa tímatöf. Þetta einræði er nú orðið svo algengt, að ekkert stoðar í móti að mæla. Bendi ég þar á sem dæmi þá fádæma málsmeðferð, sem Framsfl. hafði í Sþ. áðan, þar sem ósvífnin náði út yfir öll takmörk (Mér þætti vænt um, ef hæstv. forseti vildi undirstrika þetta með hringingu). Þessi ásökun á þó ekki við nema um Framsfl., því að Alþfl. kom drengilega fram í þessu máli og vildi viðurkenna rétt Bændafl. til að hafa mann í lögjafnaðarn. Til þess að sýna, hversu hróplegt ranglæti hér er látið fram fara, bendi ég á það, að í Danmörku hefir það alltaf verið talið sjálfsagt af stærri flokkunum, að hinir smærri flokkar ættu fulltrúa í þessari n. Störf þessarar n. eru svo þýðingarmikil fyrir þjóðina, þegar að því rekur, að útkljá verður afstöðu okkar til sambandsþjóðarinnar. Þetta dæmi, ásamt mörgu fleiru, sýnir þvílíkt ofbeldi af hálfu Framsfl. gagnvart þingi og þjóð, að búast má við öllu úr þeirri átt, sérstaklega þegar það er athugað, sem ég hefi fyrir satt, að Framsfl. hefir ekki stillt upp nema einum manni í n., en einn maður eða fáir hafa tekið sér það vald að útnefna annan, aðeins til þess að koma í veg fyrir þátttöku Bændafl., enda þótt formannsómyndin hafi þegar verið búinn að lýsa yfir því, að hann ætlaði ekki að koma að nema einum manni fyrir sinn flokk.