03.10.1934
Sameinað þing: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

Kosning til efrideildar

Forseti (JBald):

Þetta skjal, sem lagt var fyrir mig, er byggt á misskilningi á þeirri gr., sem hv. þm. nefndi. Greinin hljóðar svo:

„Forseti ræður því, hvernig atkvæðagreiðslu er skipt og í hverri röð og innra sambandi hún fer fram. Þó getur þingdeild eða sameinað þing, ef þrír í efri deild, sex í neðri deild og níu í sameinuðu þingi, krefjast þess, breytt ákvörðun forseta. Forseti og einn af flutningsmönnum mega, hvor um sig, taka einu sinni til máls, áður en til atkvæða er gengið um það. Krefjast má þingmaður þess, að atkvæðagreiðslu um breytingartill. sé skipt, ef hann gerir það áður en umr. hefjast. Nú er stungið upp á að skipta atkvæðagreiðslu um lagagr., og telst það brtt. (sbr. 32. gr.). Þó þarf ekki að koma fram með þá till. fyrr en á þeim fundi, er atkvgr. á að fara fram“.

Það er því misskilningur að vísa í 45. gr., því að hún ræðir um það eitt að haga atkvæðagreiðslu á sérstakan hátt, þ. e. a. s. atkvgr., sem fyrir liggur, eins og sést, ef lesin er 43. gr. Þess vegna ber að skoða þetta skjal, sem mér hefir borizt, sem endurtekningu á þeirri ósk að bera úrskurð forseta undir Alþingi, og get ég vísað til þess, sem ég sagði í gær um þetta efni, að ég ætla ekki að bera úrskurðinn undir atkvæði. Það var úrskurðað þá, og þessari ósk get ég því ekki orðið við. — Ég álít umræðurnar þegar orðnar nægilega langar, og mun ganga til dagskrár og taka fyrir fyrsta mál, sem er kosning í fastanefndir, samkv. 16. gr. þingskapa.