22.12.1934
Neðri deild: 67. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (5004)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég á þrjár brtt. við þetta frv. og get gjarnan orðið við þeirri ósk, að taka þær aftur til 3. umr. En ég skal þó láta fá orð fylgja þeim.

1. brtt. er um það, að samkomudagur næsta Alþingis verði eigi síðar en 2. maí næstk. Er hún flutt af þeirri ástæðu, að ég fæ ekki séð, að nokkur möguleiki sé fyrir hæstv. stj. að hafa séð um framkvæmd ýmissa þeirra laga og ákvæða, sem afgr. eru á þessu þingi, og hafa jafnframt undirbúið ýmsa stóra lagabálka, sem sennilega koma fyrir næsta þing, á hinum stutta tíma til 15. marz. Mér virðist slíkt útilokað. Og ef þingið ætti að hefjast svo snemma, myndu ýmis merkileg mál ekki koma til þingsins kasta fyrr en 4—6 vikur eru af þingi. Sjá það allir, hvernig farið er með tíma þingsins, ef þessu fer fram. Hitt kann að vera, að maí og júní séu ekki sem heppilegastur tími mörgum þm. til brottveru. En ég er hræddur um, að það sé enginn sá tími til á næsta ári, sem fellur hæstv. stj. og þm. öllum vel í geð.

Nú er þing háð í árslok, og ef taka á aftur upp þann sið að kalla það saman 15. febr., þá verður á næsta ári að finna millitíma, þannig að bilin milli þinganna jafnist eðlilega, eins og störf þeirra krefjast.

Hinar till. eru kannske ekki svo áríðandi, þó að ég hafi flutt þær nú og geri ráð fyrir, að þær beri á sínum tíma einhvern árangur. Önnur er um það, að utanbæjarþingmenn fái hærra kaup en innanbæjarþingmenn. Það er óforsvaranlegt, hvað þeim er greitt lágt kaup, þar sem þeim verður veran í Rvík um þingtímann miklu dýrari en þeim, sem hér eiga heima, en verða hinsvegar að sleppa hendi af búi sínu eða öðrum atvinnurekstri á meðan.

3. till. er um það, að þinghald skuli yfirleitt ekki standa lengur en 60 daga. Ég gæti þó eins vel fylgt till. hv. 2. þm. Skagf., um að tiltaka heldur, að þm. sé greitt kaup í 70 daga, eða þá 75, ef slík till. kemur fram. Það var yfirlýst af öllum flokkum, að þeir teldu, að þingtíminn gæti stytzt um 2—4 vikur fyrir hið nýja ákvæði stjskr., að fjárlög séu rædd í sameinuðu þingi. Til þess að stuðla að því, að þessi tilgangur náist, hygg ég sé rétt að ákveða annaðhvort eins og hér er lagt til, að greiða þm. laun fyrir ákveðinn starfstíma og svo ekki meira, þó að þing starfi lengur, eða hitt, að greiða þeim ákveðið fast kaup, hvort sem þing stendur lengur eða skemur, og þá hærra til utanbæjarþingmanna.

Ég skal ekki ræða þessar till. nánar að þessu sinni. En þær mega bera árangur síðar. Nú er hin mesta nauðsyn að afgreiða l. um samkomudag næsta þings. Og það er sama og að eyðileggja störf þingsins, ef það kemur saman á venjulegum tíma, að óundirbúnum flestum málum. Um það atriði ættu allir þingflokkar að geta verið sammála.