30.10.1934
Efri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (5034)

102. mál, vistarskóli fyrir vanheil börn og unglinga

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég hefi borið fram þessa till, með þörf þeirra fyrir augum, sem hér er um að ræða. Ég ætla í stuttu máli að leyfa mér að telja upp það, sem hefir verið gert af hálfu hins opinbera fyrir daufdumba, blinda, fatlaða og málhalta.

Síðan árið 1872 hefir heyrnar- og málleysingjum verið séð fyrir kennslu og þeir verið kostaðir í skóla, sem ríkið rekur. Í yfirstandandi fjárlögum eru ætlaðar 35 þús. kr. til skólans. Skóla þennan sækja árlega 24—25 menn, og er það ekki óverulegur styrkur, sem þessu fólki er ætlaður. Er auðvitað gott til þess að vita, að því sé sem bezt borgið. Til Blindravinafélags Íslands eru áætlaðar 3500 kr. í fjárlögunum, og auk þess eru lánuð 10 viðtæki handa blindum fátæklingum. Blindravinafélagið er ungt félag, stofnað 24. jan. árið 1932, og varð til með þeim hætti, er nú skal greina:

Haustið 1931 var haldinn presta- og sóknarnefndafundur, en þeir fundir hafa verið haldnir hér árlega á hverju hausti hin næstu undanfarandi ár. Inn á þennan fund kom maður úr fjarlægu héraði ásamt syni sínum, 9 vetra gömlum dreng, blindum. Maður þessi var í lækniserindum fyrir drenginn, en fékk þann dóm hjá augnlækni, að ekki væri hægt að hjálpa honum. Eitt af verkefnum fundarins var að ræða um blindrahjálp. Þótti það því eftirtektarvert, er leitt var inn í fundarsalinn blint barn, og munu allmargir fundarmenn hafa litið á það sem sérstaka áminningu um að ganga í lið með þeim mönnum, sem höfðu áhuga fyrir málefnum blindra. Það verður sjálfsagt mörgum minnisstæð þessi stund í hátíðarsal Elliheimilisins, en þar stóð fundurinn; og fyrir utan ríflega fjárgjöf til blinda drengsins þarna á fundinum bundust fundarmenn þá þegar samtökum. Var kosin n. til þess að undirbúa blindramálin yfirleitt. Og á tillögum og áliti þessarar n. byggðist stofnun Blindravinafélagsins. Alþ. hefir sýnt það í verkinu, að það vill einnig styðja málefni blindra. Þótt fjárhæðin til félagsins sé ekki há, er hún samt sýnilegur vottur þess.

Um tölu blindra í landinu verður ekki sagt með vissu, sízt barnanna. Í skýrslum frá 1932 (Heilbrigðisskýrslum) er þeirra ekki minnzt sérstaklega, enda vantar skýrslur úr stórum héruðum. En við blindraskólann eru nú 4 börn, auk einnar ungrar stúlku, sem áður hefir stundað nám ytra. Þar að auki er forstöðumanni blindraskólans kunnugt um stöku menn blinda, sem eru á hálfgerðu hjarni eins og stendur. Er það til áminningar um, hve bjargarvana hinir blindu eru og hjálparþurfa. Kennslan, sem þeir njóta við blindraskólann, bæði bókleg og verkleg, kemur þeim vitanlega að góðu gagni, en svo bezt þó, að fyrir þeim sé séð um vinnu og aðhlynningu, er af skólanum kemur. Þorsteinn Bjarnason, form. skólans, hefir sýnt lofsverðan áhuga fyrir málefnum blindra, og er enginn maður hérlendis kunnugri háttum þeirra og kjörum. En hann hefir getið um það við mig, að áfram verði að halda ótrauðlega, ef málefnum blindra eigi að verða komið í það horf, sem æskilegt er. Og hann telur brýna þörf á því, að ríkisstj. taki að sér málstað hinna blindu, svo sem þessi till. til þál. gerir ráð fyrir.

Fyrir fatlaða menn hefir það verið gert, að um nokkur ár — frá 1928 að ég hygg — hefir ríkissjóður veitt fjárstyrk til útvegunar gervilima. Hefir Halldór Arnórsson gervilimasmiður sagt mér, að þann styrk hafi notað fjölmennur hópur og að sú hjálp hafi orðið til þess, að mörgum manninum, sem ella hefði orðið ófært að bjarga sér, hafi tekizt að sjá sér og sínum farborða.

Í öllum menningarlöndum er lögð áherzla á það, að fatlaðir menn læri einhverja handiðn, til þess að geta með því haft ofan af fyrir sér. Lömunarveikin, sem geisað hefir ekki alls fyrir löngu í Danmörku og Svíþjóð, hefir ýtt mjög undir þessa starfsemi í þeim löndum. Og í stríðslöndunum, þar sem fólkið varð að horfa á hermennina koma margvíslega fatlaða úr ófriðnum mikla, komust menn fljótt á þá skoðun, að ekki væri nægilegt að veita þeim mánaðarlegan styrk, heldur skyldi reynt að hjálpa þeim til einhverrar vinnu. Við erum svo lánsöm hér á Íslandi, að þurfa aldrei að taka á móti sonum þjóðarinnar sundurflakandi úr ógnum ófriðarins, en þó er hér talsvert fatlaðra manna, sem mál er komið til að gert sé eitthvað fyrir. Þessi fötlun er ýmist meðfædd eða afleiðing af sjúkdómi eða slysum. En hvernig sem hún er til komin, er alltaf brýn þörf á hjálp. Því er það, að ég ber þessa þáltill. fram, um skólaheimili handa slíku fólki, og gert er ráð fyrir, að þar verði búið svo í haginn fyrir það, að þegar skólatíminn sé úti, geti það unnið fyrir sér að einhverju leyti. Við þekkjum víst öll einhver ungmenni, sem laskazt hafa svo, að þau hafa enga möguleika til þess að bjarga sér. Í flestum tilfellum bíður þeirra ekkert annað en spítala- eða hælisvist. Ég vil vekja athygli hv. dm. á því, að stöku sinnum hefir Reykjavíkurbær kostað unglinga, sem svo var ástatt fyrir, til náms, og hefir það alltaf gefizt vel. Nú er meiningin með þessari þáltill. minni að fela stj. að undirbúa fyrir næsta þing löggjöf um þessi mál. Það var mjög gleðilegt að heyra hæstv. atvmrh. lýsa því yfir, að þegar væri hafinn undirbúningur að slíkri löggjöf, og gæti mönnum virzt till. mín óþörf eftir þá yfirlýsingu. En ég get ekki séð, að samþ. hennar væri til annars en góðs eins og styddi aðeins fyrirætlun stj. um það, að leysa þessi mál á næsta þingi. Með því að samþ. till. mína leggja hv. þdm. sitt lóð á vogarskálina til þess að svo geti orðið.