08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (5042)

102. mál, vistarskóli fyrir vanheil börn og unglinga

Guðrún Lárusdóttir:

Ég skal játa, að hv. allshn. hefir sýnt málum þessum mikinn skilning, eins og sjá má á dagskrártill. hennar á þskj. 585, þar sem hún vill láta rannsaka þau. Hinsvegar virðist mér ekki hægt að blanda saman þessum tveimur óskyldu málum, þáltill. um vistarskóla fyrir vanheil börn og unglinga og frv. um fávitahæli. Þar, sem þessum málum er lengst komið, hefir ekki verið byrjað á því að semja um þau löggjöf, heldur hafa einstaklingar hafizt handa um að koma slíkum hælum upp, en svo hafa ríkin aftur tekið að sér að styrkja þau. Í Danmörku eru þessi mál komin svo langt, að nær öll slík hæli eru rekin á ríkisins kostnað. Það er ekki fyrr en þessi mál eru komin á slíkan rekspöl hér, að tækilegt er að fara að semja um þau heildarlöggjöf.

Það er lítið, sem gert hefir verið fyrir fávita hér á landi. Þó skal þess getið, sem gert er. Þáltill. minni í þinglok 1933 var vísað til stj., og bar þann árangur, að stj. gaf með 5 fávitum, 40 kr. með hverjum, í 8—10 mán. Þessir fávitar dvöldu að Sólheimum í Grímsnesi, eina fávitahælinu, sem ennþá er til hér á landi. Þessi styrkur kom sér vel, án hans hefðu þessi 5 börn ekki notið hælisvistar, sem þeim er þó öllum brýn þörf á.

Í frv. mínu um stofnun fávitahælis, sem ég ber nú fram, er ráðgert, að með lögum sé tryggður slíkur styrkur til fávita á viðurkennd fávitahæli. Verði frv. ekki samþ., er engin heimild til, sem tryggi fávitum dvalarkostnað á hælum, hversu brýn sem þörfin er, og hún er oft æðibrýn. Það kæmi sér því mjög illa, ef þessi styrkur félli niður, og hann fellur niður, ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að taka hann upp aftur. Nú er ég ekki að halda því fram, að það sé hægt efnanna vegna að rjúka til og byggja svo og svo stórt hæli fyrir fávita, heldur, eins og skýrt er tekið fram í frv., eftir því sem efni leyfa.

En viðvíkjandi þessari þáltill., sem ég verð að halda mér við, að sé fyrst og fremst um vistarskóla fyrir vanheil börn og unglinga, þá álít ég, að það sé rannsóknarefni, að hve miklu leyti unnt sé að sameina þessa skóla fyrir þennan flokk barna, en samt verð ég að segja það, að reynslan ein muni bezt leiða það í ljós. Reynslu höfum við enga ennþá, en þau blindu börn, sem eru að nokkru leyti á vegum ríkissjóðs, kosta mikið fé, og hygg ég því, að praktískast sé að sameina þetta að miklu leyti, blátt áfram barnanna vegna. Ég sem sagt felli mig vel við þetta og greiði því atkv. mitt, en ég áskil mér rétt til þess að bera fram brtt. við till. n., sem sé þá, að þessari rannsókn sé flýtt, með því að taka fram, að árangurinn verði lagður fyrir næsta þing. — Það má enginn taka þessi orð mín þannig, að ég mæli á móti því, að undirbúin verði löggjöf um forsjá fávita, en ég fæ ekki séð, hvernig það getur komið í staðinn fyrir að samþ. frv. um stofnun hælisins. Ég held, að þó þetta frv. mitt um byggingu fávitahælis verði samþ. eins og það liggur fyrir, þá hafi það enga hættu í för með sér, því það er skýrt tekið fram í frv., að það skuli vera gert eftir því sem efni leyfa. — Ég ætla þá að biðja hæstv. forseta að taka við þessari brtt. minni, sem hljóðar svo, að við till. n. bætist orðin: og leggja árangur þeirra rannsókna fyrir næsta Alþ.

Nú kann sumum að þykja það stuttur tími til 15. marz, er næsta Alþ. kemur saman, en ég ætla, að það sé nægur tími, þar sem þetta ætti ekki að vera mjög seinlegt verk. Við höfum þegar dálitla reynslu í þessum efnum hvað snertir daufdumb og blind börn. Gagnvart fötluðum og málhöltum börnum er dálítið öðru máli að gegna, vegna þess að litlar skýrslur eru til um þau. En ég hygg þó, að það þyrfti ekki að tefja málið, ef af kappi væri að því gengið. Það þyrfti ekki annað en að landlæknir fengi héraðslæknum í hendur, hverjum í sínu héraði, að rannsaka fólk í þessu ástandi og gefa um það skýrslur. — Viðvíkjandi fatlaða fólkinu vildi ég sérstaklega benda á það, að æskilegt væri, að eitthvað væri gert fyrir það, því margt af þessu fólki er alveg heilbrigt til sálarinnar og gæti ýmislegt lært, en getur ekki sökum líkamsvanburða sinna gengið að venjulegri vinnu. Og þegar ég bar fram þessa þáltill., hafði ég sérstaklega þetta fólk í huga, sem er margt til í landinu. Maður sér þess sorglegar afleiðingar á fullorðnu fötluðu fólki, hversu lítil rækt hefir verið lögð við það í uppvextinum; því hefir ekkert verið kennt, sem það hefði getað haft ofan af fyrir sér með, og þeirra einasta athvarf verður oftast nær að þiggja af sveit, sem það tekur sér oft mjög nærri. Þetta er því málefni, sem þarf sérstaklega að taka til athugunar.

Mér þykir vænt um, að n. lítur á þetta sömu augum og ég, og vona, að d. sjái sér fært að samþ. þessa viðbótartill. mína, sem einungis miðar í þá átt að reka dálítið á eftir þessu máli.