15.12.1934
Sameinað þing: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (5052)

175. mál, sala á íslenskum afurðum í Danmörku

Flm. (Jón Baldvinsson):

Í dansk-íslenzkri ráðgjafarnefnd hefir á seinni árum nokkuð verið rætt um verzlunarviðskipti milli Íslands og Danmerkur. Viðskiptin milli þessara landa hafa verið á þá lund, að við höfum keypt miklu meira frá Danmörku en Danir hafa keypt af okkur. Þetta stafar m. a. af því, að Danir framleiða að nokkru leyti sömu vörur og við, sérstaklega að því er snertir landbúnaðarvörur. Hefir því verið erfitt að koma inn á danskan markað nokkru að ráði af landbúnaðarvörum. Þó hefir jafnan verið selt þar dálítið af þeim.

Árið 1930 fluttu Íslendingar frá Danmörku vörur fyrir 20 millj. króna, en til Danmerkur aðeins vörur fyrir 2,5 millj. króna. Í sambandi við þetta ber þess að geta, að þetta ár var mikill innflutningur hér. 1931 er innflutningurinn frá Danmörku hingað 13 millj. króna, en útflutt héðan þangað fyrir svipað og árið áður, eða um 2,6 millj. króna. Árið 1932 er svo innflutningurinn fyrir 8,6 millj., en útflutt héðan fyrir 2,6 millj.

Fyrir árið 1933 eru engar skýrslur komnar frá hagstofunni um þetta efni, svo ekki er hægt að vita um tölurnar fyrir það ár. Aftur hefi ég fengið úr annari átt tölur fyrir árið 1934, og samkv. þeim er búið að kaupa vörur hingað frá Danmörku 1. nóv. síðastl. fyrir 9 millj. króna, eða fyrir nokkru hærri fjárhæð en flutt var inn þaðan allt árið 1932. Um útflutninginn héðan er ekki hægt að fá upplýst ennþá, því að svo seint gengur að safna skýrslum um það efni.

Nú væri það mjög æskilegt að halda áfram viðskiptum við Danmörku, eins og vitanlega við öll nágrannalönd okkar, en til þess þurfum við að geta selt vörur okkar þangað. Það væri vitanlega æskilegast, að þær þjóðir, sem við verzlum við, og við kaupum meira af en þær kaupa af okkur, gætu gefið okkur ávísun á innflutning t. d. til Spánar, Portúgals eða Ítalíu, ef viðskiptajöfnuður þeirra við þau lönd leyfði það. En takist slíkt ekki, verður að auka sölu á íslenzkum afurðum í þeim löndum, er við höfum hagstæðan viðskiptajöfnuð hjá. Það ber brýn nauðsyn til þess fyrir okkur, með sívaxandi framleiðslu á sjávarafurðum, svo sem er um síldarmjöl og síldarlýsi, að komast inn á nýja markaði, og í raun og veru lýtur till. þessi að því. Hún er flutt af mönnum úr öllum flokkum þingsins, svo tæplega getur orðið ágreiningur um hana.

Hér er um mikilsvert mál að ræða, því að það er mikilvægt fyrir okkur að geta selt þær vörur, sem við framleiðum, á öruggum markaði. Það má vera, að eins og sakir standa nú, þá sé nægilegur markaður fyrir síldarmjöl og síldarlýsi, sem till. ræðir um að auka sölu á til Danmerkur, en það er ekki víst, að svo verði í framtíðinni, þegar verksmiðjunum fjölgar og framleiðslan eykst að sama skapi. Og Danir eru góðir kaupendur. Viðskipti milli þeirra og Íslendinga eru líka mjög auðveld bæði sökum góðra samgangna milli landanna og langrar viðkynningar. Það, sem þeir ættu helzt að geta keypt af okkur, er síldarmjöl og síldarlýsi. Um þetta hefir töluvert verið rætt í dansk-íslenzku ráðgjafarnefndinni, og hefir því komið í ljós, að töluverðir örðugleikar eru á því að koma síldarmjölinu inn á danskan markað. Íslendingar selja þessar vörur út í stórum sendingum og kosta kapps um, eins og skiljanlegt er, að losna sem allra fyrst við framleiðsluna, til þess að þurfa eigi að liggja lengi með birgðir af vörum.

En þetta þarf að vera á annan veg. Þegar vinna á upp nýjan markað, þá þarf jafnan að vera fyrirliggjandi dálítið af þeirri vöru, sem vinna á markaðinn fyrir, svo hægt sé að koma henni út smátt og smátt. Þannig haga Norðmenn t. d. sölu á síldarmjöli á dönskum markaði. Íslendingar hafa, eins og áður segir, frekar kosið að selja þessar vörur í sem allra stærstum sendingum og þar, sem þeir fá þær greiddar gegn farmskírteinum, heldur en að taka á sig nokkra áhættu bæði í rýrnun og breyttu verðlagi, sem af því leiddi að hafa vöruna liggjandi langan tíma til þess að vinna að sölu á nýjum markaði.

Ég hefi dálítið kynnt mér möguleika á sölu á síldarmjöli í Danmörku, og í því skyni átt tal við danska kaupmenn, sem þessum málum eru kunnugir, og við ýmsa menn úr samvinnufélögunum dönsku, en þau eru aðalkaupendur á fóðurvörum þar í landi, og hafa allir verið á einu máli um það, að það væri eina leiðin til þess að vinna markað fyrir síldarmjölið í Danmörku að hafa dálítið af því þar fyrirliggjandi, og vera stöðugt að bjóða það fram. Eins og kunnugt er þá hafa Danir mjög mikinn búpening, og virðist því, að þeir myndu geta keypt af okkur mjög mikið af þessari vörutegund, þegar þeir á annað borð væru komnir upp á lag með að nota hana. Að vísu kaupa þeir ógrynni af fóðurvörum frá Rússlandi og Póllandi, og má vera, að þær séu stundum eitthvað ódýrari en þessar fóðurvörur okkar, en það út af fyrir sig ætti ekki að vera því til fyrirstöðu, að þeir keyptu af okkur nokkuð mikið af síldarmjöli, þar sem þeir kaupa dálitið af því nú, þó að það sé ekki frá Íslandi.

Þó að við færum nú að heimta, að Danir keyptu síldarmjölið af okkur í stórum stíl, þá er ég hræddur um, að það gengi ekki, því dönsku samvinnufélögin myndu ekki vilja leggja út í það að taka stórar birgðir í einu og liggja svo jafnvel með þær um lengri tíma. Bezta ráðið verður því það, að senda smásendingar, eins og venja er til þegar verið er að vinna upp nýja markaði fyrir einhverja vörutegund, og hafa vöruna fyrirliggjandi, þó að það hafi nokkra fjárhagslega áhættu í för með sér.

Skal ég svo ekki hafa þessi orð mín öllu fleiri, en vænti þess, að hæstv. ríkisstj. taki til greina það, sem í till. segir, verði hún samþ., og beini því til stjórnar síldarbræðslustöðva ríkisins að koma á fastri sölu á síldarmjöli til Danmerkur, og fara þá leið, sem ég hefi bent hér á.