17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (5057)

180. mál, öldubrjótur í Bolungavík

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég hefi leyft mér að bera þessa till. fram til þess að það verði rannsakað fyrir næsta þing, hve mikil brögð eru að skemmdum þeim, sem urðu á öldubrjótnum í Bolungavík í síðastl. októbermánuði. — Nokkur lýsing á skemmdunum hefir þegar borizt vitamálaskrifstofunni, en hún telur þær ekki nægilega ábyggilegar til þess að hægt sé út frá því að áætla, á hvern hátt eða hvað það myndi kosta að gera við skemmdirnar. Þó hefir lausleg áætlun verið gerð, og hljóðar hún upp á allt að 40 þús. kr. Þessa rannsókn þarf að framkvæma fyrir næsta þing, því að hv. fjvn. hefir ekki séð sér fært að mæla með fjárveitingu í þessu skyni fyrr en fyrir liggja upplýsingar í málinu, meiri en nú eru, og hefir mér því þótt rétt að fá þessar skemmdir rannsakaðar. Það, sem till. ætlast til, má framkvæma strax eftir áramótin, ef hittist á sæmilegt veður. Á Ísafirði er kafari og kafaraumbúnaður, ef til þess kæmi, að athuga þyrfti eitthvað, sem er niðri í sjó.