26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (5097)

91. mál, miðunarstöð í Vestamannaeyjum

Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Till. þessi er borin fram vegna mjög ákveðinna áskorana frá sjómönnum yfir höfuð um það, að reistar verði miðunarstöðvar. Aðallega hefir verið óskað eftir miðunarstöð í Vestmannaeyjum og hér á Reykjanesi, þó einnig hafi heyrzt raddir um miðunarstöð á Austfjörðum. Þessar óskir hafa komið t. d. frá félagi skipstjóra og stýrimanna, frá loftskeytamönnum og frá sjómannafélögum. Eins og getið er um í grg., starfar loftskeytastöðin í Vestmannaeyjum, sem radioriti samhliða skeytasendingunum, en það kemur aðeins þeim skipum að gagni, sem hafa miðunarstöðvar um borð. Eins og kunnugt er, hafa aðeins farþegaskipin miðunarstöðvar og nokkur hluti togaraflotans. Þær eru svo dýrar, að ekki eru taldar líkur til, að þær verði algengar á minni skipum, og auk þess er talið ógerningur að starfrækja þær á smærri mótorbátum. Hinsvegar eru nú talstöðvar orðnar svo ódýrar, að forsvaranlegt væri að gera þær kröfur til mótorskipa, að þau hafi þær innanborðs, þegar miðunarstöðvar væru komnar á nauðsynlegustu staði, svo þau gætu haft gagn af þeim.

Ég hefi borið þessa þáltill. fram í Nd., þó svo sé ákveðið, að þáltill., sem fari fram á útgjöld úr ríkissjóði, skuli bornar fram í Sþ., en ástæðan er sú, að ég ætlast til, að miðunarstöðin verði reist fyrir það fé, sem væntanl. verður ætlað í fjárl. til vitabygginga.

Ég býst við, að ástæða þyki til að athuga þetta mál í n., og óska því, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. sjútvn.