19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (5118)

89. mál, vátryggingar á fiskibátum

Gísli Guðmundsson:

Aðalflm., hv. 2. þm. S.-M. er ekki viðstaddur, og vil ég því mæla nokkur orð fyrir þessari till.

Tillagan er þess efnis, að stj. láti fara fram rannsókn á því, hversu bezt verði komið fyrir vátryggingum á fiskibátum og leggi frv. um það efni fyrir næsta Alþingi. Ennfremur, að Samábyrgðin verði ekki lögð niður samkv. lögum frá 1928 fyrir þann tíma.

Eins og kunnugt er, hefir verið gert ráð fyrir því, að Samábyrgðin yrði lögð niður, en okkur hefir dottið í hug í sambandi við þetta mál, að önnur skipun yrði þar á gerð, og förum því fram á, að framkvæmd laganna frá 1928 verði frestað unz rannsókn þeirri, sem þáltill. okkar gerir ráð fyrir, er lokið. Nú hafa verið samþ. lög um tryggingar á opnum vélbátum, en það ætti sízt að standa í vegi fyrir víðtækari tryggingum.