20.12.1934
Efri deild: 67. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (5129)

184. mál, skipulagsuppdráttur Reykjavíkur

Flm. (Jónas Jónsson) [yfirl.]:

Ég geri ráð fyrir því, að ekki þurfi miklar umr. um þetta atriði. Þó ætla ég að skýra það lítilsháttar. Fyrri liðurinn lýtur að því, að þegar Alþ., ríkisstj. og Reykjavíkurbær hnigu að því ráði að flytja Stúdentagarðinn og væntanlega háskólabyggingu frá Skólavörðuhæðinni og á staðinn sunnan við Hringbraut og austan við Melaveg, þá var gert ráð fyrir því, að háskólinn fengi þar mikið landsvæði til umráða. Því miður var ekki fullgengið frá því máli, en þó hygg ég, að í raun og veru hafi því verið lokið, þegar bæjarstj. Reykjavíkur gekk inn á að byggja Stúdentagarðinn þar, sem hann nú er, svo að það er meira landamerkjaatriði heldur en aðalatriði, sem eftir er að ákveða. En þegar byrjað var að byggja Stúdentagarðinn, kom upp sú hreyfing í sambandi við skipulag bæjarins, að það yrði að leggja aðalumferðagötu úr miðbænum meðfram tjörninni, þ. e. a. s. breyta Tjarnargötunni og láta hana koma rétt austanvert við Stúdentagarðinn og suður í gegnum þá lóð, sem gert er ráð fyrir, að háskólinn eigi að hafa. Við þetta mundi háskólalóðin verða mjög löng og mjó og þá um leið ekki eins þægileg og gert var ráð fyrir í upphafi, eða, ef hún yrði ekki öll á langveginn, þá yrði hún skorin sundur af þessari miklu umferðagötu, en menn búast við, að það mundi verða mjög óþægilegt fyrir þessa kennslustofnun og þær mörgu deildir og byggingar, sem munu væntanlega koma þar. Í þessu sambandi má ennfremur geta þess, þó að það sé nú fremur mál bæjarins, að það eru miklir annmarkar á þessu fyrir bæinn. Til þess að þetta geti gengið, yrði að breyta Aðalstræti stórkostlega, og bærinn yrði að kaupa þar dýrar lóðir, og síðan yrði að breyta Tjarnargötunni. Og það, sem skiptir máli í þessu efni, er það, að með því að leggja þessa götu þannig, þá kemur umferðagata framan við Stúdentagarðinn og háskólabygginguna. En það var einmitt ætlazt til þess af þeim, sem um þetta fjölluðu upprunalega, að hafa þarna afgirt svæði, er gæti verið sérstaklega rólegt hverfi í bænum. Nú er þetta að vísu engan veginn afráðið af Reykjavíkurbæ. m. a. af því að það yrði svo dýrt. Skipulag bæjarins hefir ekki heldur verið ákveðið, og sízt utan Hringbrautar, en ég hygg, að núv. stj. sé að vinna að því, og sá hluti till., sem að þessu lýtur, á að tryggja það, að stj. vinni að því, að skipulag bæjarins verði þannig, að þessi umferðagata komi ekki við hliðina á Stúdentagarðinum, heldur verði Melavegurinn, eins og nú er, eða að hún verði lögð einhversstaðar annarsstaðar en í gegnum þessa lóð.

Síðari hluti till. lýtur að Þjóðleikhúsinu. Það má að vísu búast við því, að það líði nokkur ár, þangað til það verður fullgert, en hitt er víst, að það verður ekki mjög langur tími þar til það verður fullgert. Þetta verður sjálfsagt þýðingarmikil stofnun, sem leikhús, kvikmyndahús og söngleikahús. Þar verða ennfremur að öllum líkindum stórir fundasalir og kannske söfn og þvílíkt. En með því að lóðin, sem verið er að byggja Þjóðleikhúsið á og þjóðleikhúslögin gerðu ráð fyrir, að yrði að nota, er á þeim stað, að mikið er um það deilt, hvort rétt hafi verið að byrja á að reisa þessa byggingu þar, og með því að menn finna til þess, að það mundi geta orðið mjög óþægilegt, þegar bærinn stækkar mikið, ef ekki yrði autt svæði rétt við leikhúsið, þá er í þessari till. gert ráð fyrir að fela stj. að athuga það í samráði við skipulagsn. bæjarins, hvort ekki sé rétt að gera ráð fyrir því, að fyrir framan þjóðleikhúsið komi torg. Það getur ekki verið um neinn annan stað að ræða en framan við leikhúsið, milli Hverfisgötu og Laugavegs, og það er ekki alveg óhugsandi, þó að það sé ekki talað um það hér, að jafnvel Skólavörðustígur væri opnaður fram að þessu torgi.

Nú hagar þannig til á þessu svæði, að húsin, sem þar eru, eru öll meira og minna gömul timburhús. Náttúrlega dettur engum í hug, að neitt verði gert í þessu að sinni, en þessi hús ganga smátt og smátt úr sér, og er þá, eins og áður er tekið fram, gert ráð fyrir því, að þarna komi torg, þannig, að Þjóðleikhúsið blasti við frá Laugaveginum. Þetta torg yrði fyrir bíla og aðra umferð í sambandi við Þjóðleikhúsið, og sömuleiðis yrði það til þess að byggingin nyti sín betur.

Það er að því leyti alveg óhætt að samþ. till., jafnvel þó að menn séu ekki alveg vissir um, að það, sem hún ákveður, sé rétt, að hún er aðeins áminning til ríkisstj. um að freista þess að ráða þannig fram úr þessu máli, að það sé til gagns fyrir Reykjavíkurbæ, þegar til lengdar lætur, og einnig til gagns fyrir þessar tvær stóru stofnanir, sem till. getur um.