10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (5140)

166. mál, verslunarerindrekar í Mið-Evrópu

Flm. (Finnur Jónsson) [óyfirl.]:

Ég get að mestu vísað til grg., sem fylgir þáltill., að því viðbættu þó, að afurðir þær, sem framleiddar eru í síldarverksmiðjum hér á landi, hafa á þessu ári verið seldar að mestu til Mið-Evrópu, og allar líkur eru til, að þessar afurðir aukist um 80% á næsta ári. Er því enn meiri nauðsyn á að sjá um, að markaðurinn haldist þar opinn fyrir þessar afurðir. Og ennfremur má geta þess, að þegar farið verður að framleiða hér hraðfrystan fisk, þá hljótum við að snúa okkur að miklu leyti til Mið-Evrópu um sölu á honum.

Mér er ljóst, að þessu starfi muni fylgja nokkur kostnaður. En hitt liggur líka ljóst fyrir, að það þarf ekki að vinnast mikið á um aukinn markað þar til þess að þetta starf beri sig vel og fáist margfaldlega endurborgað. Ennfremur er það vitað, að hver þjóð reynir nú að búa sem mest að sínu og takmarkar mjög innflutning á framleiðsluvörum annara þjóða. Og vel getur svo farið, ef ekki er gætt að því í tíma, að búið verði að loka fyrir okkur einhverjum markaði, sem við nú höfum í Mið-Evrópulöndunum. Og þá er illa farið. — Það er ekki ástæða til að fjölyrða meira um þetta, og óska ég eftir, að till. verði vísað til síðari umr.