10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (5143)

166. mál, verslunarerindrekar í Mið-Evrópu

Bergur Jónsson:

Ég get tekið undir með þeim, sem talað hafa, um, að það er full nauðsyn á því fyrir Íslendinga að hafa verzlunarerindreka í þessum löndum, sem talað er um í þáltill. En ég vil aðeins benda á, að mér finnst þetta mál ranglega fram borið; það er formlegra að leggja þetta fyrir í frv. heldur en í þáltill. — Í þáltill. er vísað til þátttöku frá bönkunum í því að halda þessu starfi uppi, á sama hátt og um verzlunarerindrekann á Spáni, og verður því ekki annað séð á till. en að hér sé um fastan starfsmann að ræða. Ég held það sé miklu réttara fyrir Alþingi að skipa þessu starfi með lögum á formlegan hátt. En þó mun ég ekki leggja á móti till., af því að ég treysti stj. til að framkvæma hana.

Ég vona, að á næsta þingi verði flutt frv. um þetta og gengið þannig lögformlega frá því.