02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Í þessu máli eru komin fram tvö nál., en ástæðan til þess, að ekki er vikið að ágreiningsatriðum hv. 1. þm. Reykv. í nál. okkar, er sú, að hann var ekki á fundi er málið var afgr. Ég hefi ekki haft tíma til að athuga nál. hans, en tel víst, að hann leggi til, að frv. verði fellt. En við hinir nefndarmenn leggjum til, að það verði samþ.

Aðalatriði frv. eru, sem kunnugt er, að ríkið fái rétt til einkarekstrar á tilbúningi hárvatna, bökunardropa og annarar iðnaðarframleiðslu, sem spíritus þarf að nota í. M. ö. o., ríkisstj. veitir einkarétt til þess að flytja það til landsins og til að framleiða það hér. Það eru í raun og veru tilsvarandi ákvæði í öllu frv. út frá þessari breytingu við 1. gr. laganna.

Í 12. gr. l. frá 1928 er talað um, að verð upptækrar vöru, sem flutt er inn í landið og komi í bág við þá einkasölu, sem þá var sett á áfengi samkv. þeim lögum, renni í ríkissjóð, en því er bælt inn í þessa 12. gr., að það gildi einnig um þær vörur, sem framleiddar eru í landinu sjálfu. En í 6. gr. hefir verið tekið upp í frv. stj. ákvæði um, að andvirði þessarar vöru skuli renna í ríkissjóð. Það er auðvitað átt við ólöglega framleidda og ólöglega innflutta vöru, en þetta er nákvæmlega eins orðað í lögunum frá 1928, svo n. sýndist óþarfi að taka það upp óbreytt, því að almenn ákvæði þeirra laga gilda ennþá, og við gerum í samræmi við þetta till. um, að 12. gr. orðist eins og segir á þskj. 268. Geta má þess, að í raun og veru eru leiðréttingarnar tvær, sem við gerum, því að breytingin, sem gerð er á 12. gr. l. frá 1928, er tekin upp í tilvitnunarmerkjum, eins og hún hefði staðið í þeim lögum, sem ekki var, og fellum við þessi tilvitnunarmerki niður til þess að sýna þessa nýju breytingu. Að öðru leyti höfum við ekki fundið neinn galla á frv. og leggjum því til, að það verði samþ. óbreytt.