02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

11. mál, einkasala á áfengi

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Reykv. hefir fært fram ástæður fyrir því, að hann telur sig ekki geta fylgt þessu frv., og þær ástæður eru helztar, að hann er yfirleitt á móti því, að ríkið hafi atvinnurekstur með höndum, og í öðru lagi, að hann sjái ekki ástæðu til þess að taka þessa vöru til framleiðslu af Áfengisverzlun ríkisins.

Hann benti á í þessu sambandi, að honum fyndist vera ósamræmi í grg. frv., þar sem sagt er frá því, að Áfengisverzlunin hafi einkarétt til þess að framleiða þær vörur, sem notaður er spíritus í, og svo í næstu málsgr., þar sem talað er um, að samþ. þessa frv. muni leiða af sér betra eftirlit með iðnaðaráfengi. Þessu er þannig varið, að það liggur fyrir álit þeirra manna, sem vit hafa á þessum hlutum, að það sé svo, að þær vörur, sem hér um ræðir, verði ekki framleiddar nema með því að nota í þær spíritus, og þess vegna ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort að gefa frjálst að nota spíritus, sem mundi óhjákvæmilega gera eftirlitið stórum erfiðara, eða að láta það eina fyrirtæki, sem má nota spíritus, hafa einkarétt til þess að framleiða þær vörur. Þetta er höfuðástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið.

Þá vil ég minnast lítillega á þær skýrslur, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á. Það kom fram í umr. í Nd. um þetta mál skörp ádeila frá Sjálfstfl., sem var byggð á því, að það væri misskilningur, að spíritus þyrfti til þess að framleiða þessa vöru, og þess vegna brystu allar forsendur fyrir þessu frv.

Í sambandi við þetta hefir landlæknir, sem hefir fylgzt með þessu máli, séð ástæðu til þess að hirta skýrslu um rannsókn, sem virðist sýna ótvírætt, að sá grundvöllur, sem frv. er byggt á, sé réttur. M. ö. o., að til þess að framleiða þessa vöru þurfi að nota spíritus, og þess vegna sé rétt sem afleiðing af því að leggja framleiðslu þessarar vöru undir Áfengisverzlun ríkisins, til þess að tryggja, að ekki séu notuð nema góð efni.

Í þessu sambandi vil ég, með leyfi hæstv. forseta, benda á atriði úr þessari grg., og til þess að hafa það sem stytzt og það þreyti ekki hv. dm., skal ég ekki lesa nema það, sem kemur málinu við. Í grg. segir svo:

„Þær vörur, sem framar öðrum og einna ískyggilegast reyndust sviknar, voru einmitt ýmsar efnagerðarvörur, eða vörur, sem svokallaðar efnagerðir framleiða. Fer hér á eftir útdráttur úr skýrslu efnafræðingsins um rannsóknir hans á nokkrum slíkum vörutegundum.“

Þessi efnafræðingur var Jón Vestdal. Svo skal ég lesa upp það, sem segir um eina þá vöru, sem um er að ræða í frv., eina tegund af bökunardropum, vanillindropana. Þar segir svo:

„Til rannsóknar voru 5 mismunandi tegundir bökunardropa, 2 tegundir af vanillindropum, 1 tegund af ananasdropum, 2 tegundir af rommdropum, 2 tegundir af sítróndropum og 2 tegundir af möndludropum.“

Svo kemur það, sem máli skiptir, vanillindroparnir:

„Til rannsóknar voru 2 tegundir af vanillindropum, nr. 21-23 og nr. 46-48.

Í þessum vanillindropum fundust í nr. 21-23: 1,08 g. vanillin í 100 ccm í nr. 46-48: l,l5 g. vanillin í 100 ccm. Til samanburðar má geta þess, að í vanillindropum, sem Áfengisverzlun ríkisins framleiðir, eru 5 g. vanillin í 100 ccm., og þar sem það er einungis vanillinið, sem gefur dropunum ilm og bragð, þá eru dropar Áfengisverzlunarinnar um það bil fimm sinnum sterkari en þeir, sem rannsakaðir voru.

Í dropunum, sem rannsakaðir voru, var vanillinið uppleyst í glyceríni, þynntu með vatni og lituðu með sýrulit. Vegna þess hve sýnishornin voru lítil, var ekki hægt að ákveða magn glycerinsins áreiðanlega.

Sé glycerins neytt aðeins í litlum skammti, eins og á sér stað, þegar bökunardroparnir eru notaðir í kökur, þó mun ekki vera hægt að telja það hættulegt. En við 290° C og jafnvel neðar myndast úr glyceríninu acrolein, og þar sem acroleinið veldur eymslum og bólgu í húðinni og slímhúðinni og minnsti vottur þess er eitraður, verður að teljast mjög óheppilegt og hættulegt að nota í bökunardropa glycerín, því sjaldan mun vera bakað fyrir neðan 290° C.

Ef nánari rannsókn leiddi í ljós, að þessi glycerinupplausn væri engin tilviljun, heldur alltaf notuð, mundi vera þörf að banna þvílíka framleiðslu.“

Í skýrslunni er getið um fleiri tegundir en bökunardropa, sem farið er fram á, að lagt verði undir Áfengisverzlunina.

Þá kemur að því, sem landlæknir segir út af umræðunum um þetta mál í Nd.:

„Einn ræðumaður virðist hafa haft það eftir einni efnagerðinni, að til framleiðslunnar væri alls ekki notaður spíritus (og er sennilega átt við olhylalkóhol). Þetta út af fyrir sig eru mjög ískyggilegrar upplýsingar, og því fremur sem þær munu vera sannar. Dr. Jón Vestdal hefir tjáð mér, að við rannsókn á innlendu hárvatni hafi það reynzt vera gert úr propylalkóhóli. En hann telur vafasamt, að propylalkóhól sé til slíks nothæft og muni það fremur verða að teljast alls ónothæft. Af rannsókn hans á bökunardropum er það nægilega upplýst, að önnur uppleysingarefni en venjulegur vínandi geti verið hættuleg og alltaf síðri, með því að vínandinn gufar burtu við allan bakstur.“

Eftir þessum upplýsingum, sem voru okkur reyndar kunnar áður en frv. var borið fram, þó að það væri ekki almenningi kunnugt, er það augljóst mál, að það er full ástæða til að leggja þessa framleiðslu, sem þarf spíritus til að framleiða, undir Áfengisverzlunina, því að ef öllum væri leyft að hafa spíritus til þessarar framleiðslu, þá mundi verða örðugt að hafa eftirlit með iðnaðaráfenginu.

Ég skal svo ekki fjölyrða mikið meira um þetta mál. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hér væri í fyrsta sinn seilzt inn á svið iðnaðarins og hann lagður undir ríkið. En ég þóttist færa rök fyrir því, að það er af sérstökum ástæðum, að einmitt þessi iðnaður er lagður undir ríkisstofnun, og ég þykist ekki þurfa að fara langt út í að ræða um það almennt, hvort þetta frv. gefi hugmynd um það, að þeir, sem að því standa, vilji leggja iðnaðinn undir ríkið. Viðvíkjandi fyrirspurn hv. þm. um það, hvers vegna eigi að afnema lagaákvæðið, sem er í núgildandi lögum um hámarksálagningu á áfengi, þá vil ég segja það, að eftir reynslu þeirra manna, sem þessum málum eru kunnugastir, er það álit þeirra, að bezt sé að hafa ekki neinum föstum takmörkum bundið um álagningu á þessa vörutegund, heldur sé það ákveðið af ríkisstj. og forstöðumanni fyrirtækisins í sameiningu. Það má auðvitað um þetta deila fram og aftur, en við höfum ekki séð ástæðu til að taka nein slík ákvæði upp í þetta frv., því að þar er mjög erfitt að koma þeim svo fyrir, að þau verði ekki til þess að trufla starfsemi verzlunarinnar þegar til á að taka, en ef reynslan skyldi nú sýna, að boginn hefði verið spenntur of hátt um verðlag á þessari vöru, þá getur ríkisstj. tekið í taumana ef ástæða þykir til þess.