02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla að láta hv. 4. landsk. um það, að ég hafi alltaf verið í brún málsins, en hann hafi sjálfur alltaf verið í kjarna málsins. Hann segir, að ég haldi því fram, að iðnaðarmenn séu eingöngu atvinnurekendur. Ég get nú sagt þessum hv. þm. það, að kjör atvinnurekenda og þeirra, sem vinna hjá þeim, eru í mörgum tilfellum sameiginleg. Ef iðnfyrirtækin blómgast, skila þau arði til þeirra, sem vinna við þau. Og ef iðnaðurinn er frjáls, þá getur hver og einn, sem vinnur við iðnaðinn, orðið sjálfstæður atvinnurekandi, ef honum gengur vel. Ef iðnaðurinn blómgast, þá er það gott bæði fyrir yfirmenn og undirgefna. Það er heldur ekki gott að gera alla menn að undirgefnum.

Ég minntist á apótekin, en hv. 4. landsk. gat ekki litið út fyrir apótekin. Hann sagði, að mótstaðan gegn frv. væri komin frá apótekunum. Ég hefi nú satt að segja ekki heyrt minnzt á það fyrr. En ég veit, að apótekin hafa ekki skapað mínar pólitísku skoðanir. Og skoðun mín á þessu máli er aðeins einn liður í minni pólitísku skoðun yfirleitt. Ég tel það bezt fyrir þjóðfélagið, að þetta sé í höndum einstaklinga.

Heldur hv. þm., að úti í löndum, þar sem eru verksmiðjur, sem senda frá sér jafnvel milljónir af glösum, sé skoðað í hvert glas um leið og búið er að hella í það. Slíkt nær auðvitað engri átt, en fyrirkomulagið er auðvitað þannig, að sýnishorn eru tekin og prófuð, og ef varan reynist ekki eins og hún á að veru, þá er hún gerð upptæk. Það nær auðvitað engri átt að hafa ekkert eftirlit í okkar dvergiðnaði. Það er auðvitað stórháskalegt fyrir iðnaðinn. Því iðnaðarmönnum er það nauðsynlegt fyrst og fremst, að eftirlitið sé strangt. Ég vítti, hvernig rannsóknum Jóns Vestdals hafi verið slöngvað út athugasemdalaust. Jóni Vestdal virðist hafa komið það á óvart, að skýrslur hans væru birtar. Síðan hefir komið í ljós, að eitrið í vörunum var ekki skaðlegt og að margt af vörutegundunum voru útlendar vörur, og ennfremur, að smjörlíkið, sem rannsakað var, var gamalt og er nú ekki lengur í verzlunum, en þetta hefði getað varpað skugga á allt annað smjörlíki. Ég verð að segja það, að ef menn eru óánægðir með vöruna, þá hafa þeir aðgang að áfengisverzluninni, en það má ekki þar fyrir útiloka aðrar verzlanir frá þessum iðnaði. Hv. þm. fann ekki annað ráð til þess að útrýma fölsuðum vörum en það, að ríkið tæki allt í sínar hendur. [Eyða í handr.].

Þetta var einmitt hjá sjálfri áfengisverzluninni, þegar glundrað var saman sæmilegu víni og þeim víntegundum, sem ekki höfðu selzt. Það er nú hinn svokallaði „Dogbrandur“, sem frægur er orðinn. Þetta var auðvitað sú grófasta óskammfeilni. Hér hefir ekki nein önnur eins vörufölsun átt sér stað eins og af hálfu þeirrar verzlunar, sem nú á að fela tilbúning þessara vara, einmitt til þess að maður geti verið alveg viss um, að þær séu algerlega ófalsaðar! En það þarf sannarlega að hafa eftirlit, þó að ríkið taki þessar vörur í sínar hendur, svo framarlega sem það tekur þær ekki allar, a. m. k. vegna þeirra, sem eru í frjálsri samkeppni.