07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

11. mál, einkasala á áfengi

Stefán Jóh. Stefánsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins tvö atriði, sem ég þarf að leiðrétta hjá hv. 3. þm. Reykv.

Þessi hv. þm. vildi halda því fram, að skýrslan, sem landlæknir sendi fjhn. þessarar d., hefði verið lengi á leiðinni og hefði komið við á Hverfisgötu hjá Alþýðublaðinu. Ég get upplýst hv. þm. um það, að þessi skýrsla barst form. fjhn. rétt fyrir 3. umr. þessa máls hér í d., en svo var enginn fundur haldinn í n. frá því að skýrslan barst n. og þangað til frv. kom til 3. umr. Þessi skýrsla var komin til fjhn. áður en birtist útdráttur úr henni í Alþýðublaðinu, og þeir grunsamlegu svigar, sem hv. þm. sá í skýrslunni, eiga ekki rót sína að rekja til Alþýðublaðsins, heldur til form. fjhn., hv. 2. þm. Skagf., eins og hann mun geta borið um, ef hann sér ástæðu til.

Hitt atriðið vildi ég leiðrétta einnig, að hv. þm. sagði, að fjhn. hefði ekki séð ástæðu til þess að gera neitt út af skýrslu landlæknis, sem send var n., og að n. hefði fundizt hún lítilsverð, þessi fullyrðing er röng. Eins og ég sagði áðan, kom skýrslan til form. n. áður en málið var afgr. úr d., en enginn fundur var haldinn í n. áður en það var afgr. til Ed. Ég sá því ekki ástæðu til þess að ræða skýrsluna sérstaklega, þar sem hún snerti aðeins það mál, sem búið var að afgr. frá n. og út úr þessari hv. d., og hinsvegar engin ástæða fyrir n. að taka þessa skýrslu til athugunar að öðru leyti en því, sem við kom þessu frv., sem hér liggur fyrir. Að öðru leyti hefir hún verið tekin til athugunar af hæstv. ríkisstj., þannig, að fyrirskipuð hefir verið opinber réttarrannsókn út af þeim upplýsingum, sem komið hafa fram í þessari skýrslu.

Ég ætla, að meginþorra af mönnum hér í bænum hafi fundizt, ekki einn sinni æskilegt, heldur sjálfsagt, að rannsókn væri látin fara fram í þessu máli, því að það hefir verið í meðvitund manna, a. m. k. húsfreyjanna, að allar iðnaðarvörur væru ekki sem vandaðastar, og þegar það var staðfest með rannsókn fræðimanna á þessu sviði, þá var líka sjálfsagt að láta dómstólana rannsaka það. Og nú bíðum við átekta með að sjá, hvað af þessari rannsókn leiðir, og ég ætla, að af henni leiði það, að landlæknir og aðrir, sem hafa haft þetta mál með höndum. hafi unnið þarft verk og séu allra sízt ámælis verðir.