07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Út af því, sem hv. 1. landsk. sagði um að þessi skýrsla hefði ekki komið Alþingi við að neinu öðru leyti heldur en því, er snertir þetta mál, sem hér liggur fyrir til umr., þá vil ég spyrja hann, hvernig hefði farið, ef engar umr. hefðu orðið um þetta mál og það hefði farið þegjandi og hljóðalaust í gegnum þingið. Þá hefði þessi skýrsla alls ekki komið fram, og þá hefði heldur ekki þessi rannsókn verið fyrirskipuð, sem hæstv. ríkisstj. er nú búin að fyrirskipa, og sem hv. 1. landsk. var að belgja sig út af, hvað sjálfsagt og nauðsynlegt það hefði verið, til þess að húsmæðurnar í bænum fengju ekki skemmda vöru. Þessi skýrsla kemur Alþingi við að meira leyti en því, er snertir þetta mál. Hún var send fjhn., sem fulltrúa Alþingis, til þess að gera út af henni það, sem n. þótti rétt og skylt að gera, eða svo verð ég að líta á það.

Það getur verið, að landlæknir hafi ekki sent skýrsluna í þessu augnamiði og að hv. 1 landsk. hafi ekki tekið á móti henni með þessum skilningi, en þegar ég spurði hvað fjhn. ætlaði að gera við þessa skýrslu, þá var það út frá því spurt, að ég taldi n. skylt að gera einhverjar ráðstafanir út af skýrslunni, t. d. að skora á ríkisstj. að láta fara fram rannsókn, sem ekki var búið að fyrirskipa þegar skýrslan kom til n. og þar til umr. En þrátt fyrir það, að hv. 1. landsk. slær því föstu nú, að sjálfsagt hafi verið að láta fara fram opinbera rannsókn í þessu máli, þá segir hann, að fjhn. sem fulltrúi Alþingis hefði ekki átt að skipta sér neitt af henni, úr því að þetta frv. var komið út úr deildinni. Hann ætlast til þess, að fjhn. hagi sér eins og landlæknir, að láta skýrsluna liggja í þagnargildi, ef ekki hefði komið til, að hana þurfti að nota í pólitísku augnamiði. Það, hvort seldar eru eitraðar vörur í landinu, skiptir engu máli, en af það var pólitískur hnekkir fyrir stjórnarflokkana, að legið var á skýrslunni, þá var sjálfsagt að bregða af blæjunni og birta skýrsluna, en fyrr ekki.

Út af því, sem hæstv. fjmrh. var að tala um vottorð Jóns Vestdals, að bökunardropar smjörlíkisgerðarinnar „Ljómi“ væru ekki nothæfir, þá liggur það í hlutarins eðli, að það er alveg samskonar vitleysa og þessi hæstv. ráðh. er alltaf vanur að fara með. Til hvers heldur hæstv. ráðh., að þessi efnagerð sé að búa til bökunardropa, ef þeir eru ekki nothæfir? Og til hvers heldur hann, að þessi efnagerð sé að leggja í þann kostnað að láta rannsaka þessa dropa sérstaklega og fá vottorð um, að þeir séu óskaðlegir, ef hún getur ekki selt þá og þeir eru ekki nothæfir? Það er ástæða til þess að bera fram tilmæli til stjórnarflokkanna, hvort þeir geti ekki haft einhver ráð með að koma í veg fyrir, að þessi hæstv. ráðh. sé að flónska sig í umr. eins og hann gerir þráfaldlega, bæði í þessari hv. d. mg eins í hv. Ed. - gera sig beran að fáfræði og flónsku, sjálfum sér og stjórnarflokkunum til hinnar mestu hneisu. - (Forseti hringir). Það þýðir ekkert að hringla handjárnum framan í mig, ég segi það, sem mér sýnist.