13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

8. mál, tekju- og eignarskattsauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil taka það fram enn á ný, að þær yfirlýsingar, sem hafa komið fram af hálfu Sjálfstfl., eru á misskilningi byggðar. Þetta kemur ekki við fjárlagafrv. fyrir 1935. Hér er aðeins farið fram á framlengingu á skattalögum, sem giltu árið 1933, og fyrir því var gert ráð, þegar fjárlagafrv. fyrir 1934 var samið. Á þessu bera Framsfl. og Sjálfstfl. ábyrgð, af því að þeir stóðu að þeirri stj., sem bar það fjárlagafrv. fram. Það er því misskilningur, að þetta standi í sambandi við fjárlagafrv. fyrir 1935, og ef flokkurinn er ekki með þessari skattaaukningu nú, þá er það ósamræmi, því að hann gekk út frá því á sínum tíma, að þessi skattur yrði lagður á.

Ég vil því fara fram á, að flokkurinn taki aftur þessa beiðni, því að það er nauðsyn að hraða þessu frv., því að nú er orðið svo liðið á árið, að erfitt verður að innheimta þennan skatt, ef það dregst lengi, að þetta frv. verði afgr. sem 1. frá þinginu.