18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

8. mál, tekju- og eignarskattsauki

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ástæðan fyrir fyrirvara mínum er í raun og veru tilgreind á öðru þskj., sem ekki er tilheyrandi þessu máli. Ég tilgreindi þessa ástæðu við umr. um brtt. við 1. gr. tolli., og svipuð yfirlýsing hefir komið fram frá Sjálfstfl. í Nd.

Okkur þykir ekki fært, eins og nú er ástatt, að hækka einstaka tekjustofna mjög mikið. Við viljum heldur bjóða hæstv. stj. liðsinni okkar til að ná tekjum ríkisins með lítilli hækkun á sem flestum stöðum. Skattakerfi landsins er í því formi sem er, af því að sanngjarnt hefir þótt að ná inn sköttum með þessum hætti, að hækka allt nokkurnveginn jafnt. Kemur það betur við menn, hvernig sem á því stendur, að greiða litla viðbót á mörgum stöðum en mikla á einum stað.

Ég játa, að þetta frv. hefir nokkra sérstöðu, því að hér er ekki um hækkun að ræða frá árinu áður. Þessi viðauki var sem sé innheimtur síðastl. ár, og auk þess á hann við lið í fjárl. þessa árs, sem búið er að framkvæma að mestu leyti. Hefi ég því ekki viljað snúast á móti frv., en hefi ritað undir nál. með fyrirvara.

Ég vil hér leyfa mér að mótmæla þeim ummælum um þetta frv., sem ég hefi bæði heyrt og séð á prenti, að Sjálfstfl. hafi lofað því og samið um það á þingi 1933 að hafa þetta svona framvegis. Ég vitna í því efni í mín ummæli á þessu þingi, þar sem ég bæði talaði á móti málinu og greiddi atkv. á móti þessari hækkun. Ég hélt því þá fram, að 25% hækkun væri allt, sem fært væri að leggja á, vegna sveitar- og bæjarfélaga, sem verða að ná sínum tekjum inn með tekju- og eignarskatti. Er ekki rétt, að ríkið fari að seilast inn á þessa fjárstofna. Ég var ekki einu sinni með því að samþ. þetta í það eina skipti, hvað þá til frambúðar.

Mér þykir lakara, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessar umr. Það er leitt, að hann skuli vera fjarstaddur, þegar rætt er um skattafrv. (Forsrh.: Hann er við atkvgr. í Nd.). En ég vildi nota tækifærið til að svara þeim ummælum hans, sem ég heyrði í lok umr. í Nd. í gær og beint var til mín sérstaklega. Hæstv. fjmrh. bar það fram, að ég hefði við 1. umr. fjárl. sagt, að við vildum ekki veita stj. neina skattahækkun, en heimtuðum aðeins, að útgjöld fjárl. yrðu færð niður, svo að enga skattahækkun þyrfti. Hélt hann því fram, að mér hefði snúizt hugur frá því, er ég hélt þessa ræðu, og þar til ég skrifaði nál. á þskj. 104, þar sem ég væri nú með því að heimila ríkisstj. viðauka á flestum tekjustofnum, til þess að fjárl. gætu orðið afgr. tekjuhallalaus.

Það er nú ekki við því að búast, að maður geti sagt alla hluti í einni hálftímaræðu. En til þess að sýna, að mér hefir ekki snúizt hugur og að ég hefi ekkert nýtt lært í þessu máli, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna í nokkur ummæli sjálfs mín á þingi 1933.

Við umr. um viðbótar-tekju- og eignarskatt, en það frv. var borið fram að tilhlutun þáv. fjmrh., andmælti ég viðaukanum. Þar sagði ég (C-deild, bls. 110): „Það er mín fasta skoðun, að þegar safna þarf fé í ríkissjóð á erfiðum tímum sem þessum, þá beri að dreifa sem frekast er hægt þunganum af þessum auknu byrðum, svo að hver og einn beri sem jafnast. Nú eru ekki til stórupphæðir hér á landi, engar stórtekjur einstaklinga. Ef hinsvegar væri lagður á sérstakur kreppuviðauki, þá þyrfti ekki nema 5-10% til þess að þessar ákveðnu tekjur væru tryggðar. Og ég er alveg sannfærður um, að þetta myndi gera miklu minni skaða en hækka og þar með spilla þeim skattstofni, sem er eina bjargráð bæjarfélaganna. Dreifing sú, sem er fólgin í skattakerfinu eins og það er nú, er talin heppilegasta fyrirkomulag í þeim efnum, og er ég því fast fylgjandi, að ekki verði hróflað svona stórkostlega við henni“.

Þetta sýnir, að skoðun mín hefir verið sú sama 1933 og við umr. fjárl. nú. - Ennfremur segi ég (bls. 150):

„Það er algerlega rangt hjá hæstv. forsrh., að þm. vilji ekki veita stj. það fé, sem þarf til þeirra ráðstafana, sem samkomulag hefir orðið um að gera“.

Ég benti síðan á það, að ég vildi veita stj. þann tekjuauka, sem þyrfti, ef farin væri sú leið, sem ég stakk upp á. Hér er ekki um að ræða neina nýja bólu, heldur gamla stefnu flokks okkar.

Ég ætla ekki að svara hæstv. fjmrh. frekar, þar sem hann er ekki viðstaddur. En hann ætti ekki að vera að álasa mér fyrir að standa á móti þessum skattauka, þar sem ég hefi bjargað fyrir hann 40% viðaukanum við eignarskattinn, sem hann hefði annars misst af.