18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

8. mál, tekju- og eignarskattsauki

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég hefi ekki miklu að svara, því hv. 1. þm. Reykv. talaði sama og ekkert um þetta mál, heldur var með almennar hugleiðingar. Hann lýsti því sem sinni skoðun, að þegar ríkissjóður þyrfti tekjuauka, þá væri heppilegast að bæta við sem flesta tekjustofna ríkissjóðs. Sé ég ekki annað en að þetta frv. sé að þessu leyti í hans anda. Hvað þessa skoðun hv. þm. snertir mætti ganga inn á hana, ef óhætt væri að slá því föstu, að tekjustofnarnir væru ákveðnir réttlátlega. Að það sé nú ekki svo, virðist þó vera skoðun þessa hv. þm. Aftur á móti er það álit þeirra manna, sem álíta ýmsa galla á því, hvernig tekjustofnar ríkisins hafa verið ákveðnir, að það geti legið eins nærri að bæta við suma tekjustofna, fella aðra niður o. s. frv., ef það getur talizt til umbóta og felur í sér réttlátari tekjuöflun fyrir ríkið. Því er rétt að athuga, hvernig því verður betur fyrir komið, svo réttlátara verði gagnvart skattþegnunum. Hv. þm. tók það fram, um þetta mál sérstaklega, að hann og hans flokkur hefði ekki verið bundinn neinum samningum um það. Þetta kann vel að vera, að hans flokkur hafi ekki beinlínis gert samninga um þetta mál: áframhaldandi eignar- og tekjuskattsviðauka. En með verkum sínum hefir flokkur hans þó tekið á sig siðferðislega ábyrgð í þessu efni, því í gildandi fjárl. er gengið út frá þessum skattauka, og þm. Sjálfstfl. hafa samþ. þau, eins og aðrir flokkar í þinginu, og auk þess var Sjálfstfl. þá meira að segja stjórnarflokkur. Ég þarf ekki að eyða fleiri orðum að ræðu hans; þó þm. vilji láta aths. fylgja frv., er hann samþykkur því, hefir lýst því yfir m. a. með því að skrifa undir nál. Hv. þm. telur sig hafa bjargað eignarskattsaukanum fyrir stjórnina, með því að stinga upp á því, að frv. færi til nefndar. Má vel vera, að það sé honum að þakka, að frv. fór til nefndar. En þó málið hefði nú ekki verið athugað í n., er ekki óhugsandi, að aðrir hefðu tekið eftir þessu, e. t. v. við síðari umr. Annars þurfti ekki að leggja höfuðið í bleyti til að sjá þetta, að því er virðist, og a. m. k. sá n. þennan galla á frv. þegar í stað. Ég geri ekki ráð fyrir, að við séum svo mikið vitrari sem nefndarmenn eða á nefndarfundum, að óhugsandi sé, að við hefðum fundið þetta hér í deildinni. Samt var auðvitað ekkert á móti því að vísa málinu til okkar í n., og auðvitað er það rétt, að við höfum lagað það.