15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

23. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Jón Pálmason) [óyfirl.]:

Eins og flestum hv. þdm. er kunnugt, hefir verið á tímabilinu 1923 og fram á þennan dag ræktað meira land en nokkurntíma fyrr í sögu landsins. Til þess má telja tvær höfuðástæður. Önnur þeirra er samþykkt jarðræktarlaganna 1923, sem mestu munu valda um breytingu í ræktunarmálum bændanna, og hin ástæðan er sú, að vinnukrafturinn er svo dýr, að bændur hafa séð þann kost vænstan að auka ræktaða landið sem mest, svo meira yrði unnt að nota vélar en verið hafði.

Síðan kreppan skall á hefir alvarlegasti annmarkinn, sem hamlað hefir frekari ræktunarframkvæmdum, verið bundinn við áburðarspursmálið. Með tvennu móti hafa menn þó verið styrktir í þessum efnum; annarsvegar með fjárstyrk til betri hirðingar á innl. áburði, og hinsvegar með styrk til kaupa á erl. áburði. En það hefir komið í ljós á þessum kreppuárum, að ekki hefir verið það áframhald í ræktunarmálunum sem þyrfti, og sú stífla verður ekki losuð nema hlutaðeigendum sé gert fært að kaupa áburð, eftir því sem þörf er á. Þess vegna hefir landbn. séð nauðsyn þess að halda styrkveitingu þeirri, sem verið hefir og bundin er við greiðslu flutningskostnaðar til landsins og milli hafna. Um þetta hefir meiri hl. n. orðið sammála, en nokkur ágreiningur hefir orðið um, hvernig þessu skuli hagað í framkvæmdinni. meiri hl. vill breyt. á þá lund, að ríkisstj. sé bundin við að greiða 20 kr. pr. tonn. En einn nm., sem sé hv. 2. þm. Reykv., vill halda þeirri skilgreiningu, sem er, að hér sé aðeins um heimild handa stj. að ræða, og vill binda hana við 40 þús. kr. hámark. Að sjálfsögðu gerir hv. þm. grein fyrir sinni afstöðu eða á hverju hann byggir þetta, en meiri hl. n. fellst ekki á skoðanir hans. - Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en vænti þess, að málið gangi áfram til 3. umr., hvort sem brtt. verður samþ. eða ekki.