15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

23. mál, tilbúinn áburður

Héðinn Valdimarsson:

Þegar flutt var hér á Alþ. frv. til l. um verzlun með tilbúinn áburð og samþ. einkasala á honum, vorum við Alþýðuflokksmennirnir því fylgjandi, en vorum mótfallnir styrknum eða endurgreiðslu flutningskostnaðar, sem engin trygging var fyrir, að kæmi réttlátlega niður meðal bændastéttarinnar, og er kostnaðarauki fyrir ríkissjóð, en til lítils gagns. Nú er það svo, að í stað þess, að í gildandi lögum er aðeins heimild handa ríkisstj., er flutt till. um, að þetta verði föst lög, og þykir mér því rétt að taka fram nokkuð sömu afstöðu af hendi okkar Alþýðuflokksmanna. Við erum alveg sammála því að hafa einkasölu, eða það fyrirkomulag, sem hefir verið, að S. Í. S. hafi áburðarsöluna f. h. ríkisins. Það virðist hafa farið vel úr hendi. Ég er meira í vafa um, hvort ákvæði 2. gr. um endurgreiðslu flutningskostnaðarins á að halda sér. Þar er um að ræða að greiða vissan hluta verðsins til baka.

Upphaflega var ætlunin sú með þessum styrk, að hvetja bændurna til og kenna þeim að nota tilbúinn áburð. Það ætti að vera liðinn sá tími, svo styrksins væri ekki lengur þörf, enda er hann lítið fjárhagslegt atriði fyrir hvern bónda, en töluvert fyrir ríkissjóð, er allt kemur saman. Ég hefi þó gengið inn á það í landbn. til samkomulags, að greiða flutningskostnaðinn enn um stund, en ég tel, að hann eigi að falla niður bráðlega, t. d. innan 3 ára. Ég tel, að ekki eigi að veita styrkinn á þennan hátt lengur, því það er á móti öllum venjulegum verzlunarháttum og útlendi áburðurinn er beinlínis verndaður gegn innlendum áburði með þessum styrk.

Ég legg því til, að stj. sé veitt heimild til endurgreiðslu flutningskostnaðar um 3 ár og að upphæðin sé takmörkuð, eins og gert er í till. minni, við 40 þús. kr., og er það sú upphæð, er greidd hefir verið síðastl. ár.

Vona ég, að á þeim tíma - 3 árum -, sem heimildin felur í sér, sé hægt að koma upp íslenzkri áburðarvinnslu, og ætti þá ekki að verða neitt deiluefni um þennan styrk lengur. Samkv. bráðabirgðarannsóknum, sem gerðar hafa verið, virðist möguleiki fyrir allmikilli áburðarvinnslu hér á landi, á kalksaltpétri o. fl.