15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

23. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Jón Pálmason) [óyfirl.]:

Í umr. hafa komið fram nokkur atriði, sem ég vil minnast á .

Hv. 2. þm. Reykv. virtist halda því fram, að væri styrknum létt af, gæti það orðið til þess að vernda erlendan áburð fyrir innlendri framleiðslu. Það er enginn áburður framleiddur hér á landi. Þessi l. eru felld úr gildi, og er því öll hræðsla í þessu efni ástæðulaus.

Hvað hámarksupphæðina áhrærir, skil ég vel afstöðu hæstv. fjmrh., að honum þyki gott að hafa fjárveitingu í fjárl. til þessa, eins og annars. Vil ég þá benda á það, að ef hámarksupphæð verður svo lág, að líklegt sé, að hún hrökkvi ekki til þess að borga flutningskostnað þessarar vöru, þá verður að setja nánari ákvæði um, hvernig með skuli farið. Líklegt er, að þessi 40 þús. kr. upphæð sé of lág til þess að hægt sé að greiða með henni allan flutningskostnað. Vil ég þess vegna f. h. landbn. leggja til, að þessi till. verði felld.

Hinsvegar er mér f. h. n. óhætt að lofa því, að hún taki til athugunar fyrir 3. umr., hvort ekki sé rétt að setja hámarksupphæð.

Viðvíkjandi því sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, vil ég taka það fram, að ég er yfirleitt á móti einkasölum í verzlunarháttum. Hér stendur sérstaklega á. Hér er um einskonar nauðsynjavöru að ræða. Það er veittur styrkur úr ríkissjóði í þessu skyni. Ég hefi töluvert fylgzt með framkvæmd þessa máls undanfarin ár. Mér finnst einkasala sú, sem hér um ræðir, hafa reynzt betur en aðrar. Af þessum ástæðum get ég brotið í bága við þá meginreglu mína, að vera mótfallinn einkasölum yfirleitt. Þetta þótti mér vissara að taka fram, til þess að fyrirbyggja allan misskilning í þessu efni. Vona ég svo að lokum, að hv. þdm. sé ljóst, hvernig í þessu máli liggur.