15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

23. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil benda á það, að árið 1929 var kostnaðurinn við áburðareinkasöluna: 83337,03 kr., árið 1930: 117333,80 kr. og árið 1931: 82019,73 kr. Er landflutningur þar með talinn.

Ég geri ráð fyrir að sá liður, sem greiddur er til landflutninga, nemi ekki nema lítilli upphæð. Kemur því ekki til mála að lækka þennan lið.

Það er ýmsum örðugleikum bundið að ræða um þetta til hlítar fyrr en fullar sönnur fást fyrir því, hver skattur verður, svo að nefndin sjálf geti athugað reikningana.

Ég hygg, að um eðlilegan mismun sé að ræða ár frá ári, vegna þess að áburðareinkasalan hefir yfirfærðar hjá sér innistæður, sem ríkið á. Samkvæmt landsreikningunum frá 1932 hefir áburðareinkasalan fengið um 27000 kr. í sínar hendur frá ríkinu. Það getur verið, að slík yfirfærsla hafi átt sér stað árið 1933, og innistæður hafi minnkað frá því, sem var í árslok 1932. Mér finnst ekki vera hægt að komast hjá því að lækka styrkinn, sem veittur er, svo framarlega sem binda á fjárveitingu við 40000 kr.