17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

23. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hreyfði nokkrum aths. við þetta frv. þegar það var borið hér fyrst fram, og ég bjóst við, að út af þeim aths. mundi hv. landbn. bera sig saman við mig um þau atriði, sem ég gerði að umtalsefni, en það hefir hún ekki gert. Ég bjóst við, að þetta mál yrði ekki tekið svona fljótt fyrir, svo að brtt., sem ég ber fram, er enn í prentsmiðjunni, en hún er væntanleg á hverri stundu. Skal ég nú í stuttu máli skýra afstöðu mína til þessa máls.

Það er kunnugt, hvað aðallega vakti fyrir mönnum, þegar lögin voru sett árið 1928. Fyrst og fremst átti að koma áburðarverzluninni undir ríkið, til þess að tryggja þeim, er áburðinn notuðu, innflutningsverð að viðbættum umsetningarkostnaði. Allan annan kostnað skyldi ríkissjóður greiða. Með breyt., er gerð var á lögunum árið 1929, var farið inn á aðra leið. Sú skoðun kom fram, að eigi væri rétt að láta alla kaupa áburðinn sama verði á innflutningshöfnum, án tillits til þess, hvort þeir þyrftu að flytja hann lengri eða skemmri leið heim til sín. Var nú sú breyt. á gerð, að greiðslan úr ríkissjóði skyldi eigi koma fram í lækkuðu verð áburðarins, heldur skyldi búnaðarfélögum og öðrum, sem ræktu þessa verzlun heima fyrir, greidd tilsvarandi fjárhæð til úthlutunar og jöfnunar á aðstöðumun manna, eftir því hvort þeir byggju nærri eða fjarri innflutningshöfnum. Ég held, að þessi ákvæði frá 1929 hafi aldrei komið til verulegra framkvæmda, og með lögunum 1931 voru þau felld úr gildi, en ríkisstj. veitt heimild til þess að greiða flutningskostnað á landi, ef kaupandi áburðarins var búsettur 35 km. frá innflutningshöfn. Ég veit ekki, hvort þessum ákvæðum hefir verið fylgt, nema ef það hefir verið árið 1932, en árið 1933 var það ekki gert og ekki á yfirstandandi ári.

Sá kostnaður, sem ríkissjóður hefir af þessu haft, er hv. dm. kunnur, því að ég las þær tölur úr LR, þegar málið var hér síðast til umr.

Í skýrslu Búnaðarfél. Íslands er talað um greiðslu fyrir landflutninga, en þeir gátu ekki komið til greina samkv. lögunum sjálfum. En 1932 er ekkert greitt, og gat það þó komið til greina samkv. lögum frá 1931. Það frv., sem hér liggur fyrir, gengur skemmra en lög þau, sem gilt hafa, og brtt. sú, sem ég hefi flutt, bætir úr þessu. Eftir skýrslum, sem fyrir liggja, sést, að innflutningurinn á tilbúnum áburði hefir verið sem hér segir:

1929 innfl. 2130 tn. selt 2095

1930 - 2387 - - 3145

1931 - 3348 - - 3380

1932 - 2492 - - 2550

Eins og sést af þessu yfirlitir, hefir sum árin verið selt meira en inn hefir verið flutt, og kemur það niður á mismunandi birgðum frá ári til árs. Innflutningurinn 1932 er kominn nálega niður í það, sem hann var 1929, en þá var kostnaður ríkissjóðs 74583 kr. Síðan hefir innflutningur lækkað nokkuð, er 1933 um 2360 tn. og 1934 um 2200 tn., eða nokkru minni en 1929.

Þó kostnaður yrði lægri nú, hlýtur hann að verða töluvert hærri en áætlað er í fjárl.frv., nema gengið verði inn á þá braut, sem till. 2. þm. Reykv. fer fram á, að binda fjárveitinguna við ákveðið hámark, svo að hún fari aldrei yfir 40 þús. kr. Er sjáanlegt, að þá mundi framlag ríkissjóðs lækka allt að helmingi frá því, sem verið hefir, eða sem nema mundi um 20 kr. pr. smálest samkv. gildandi lögum, sem mundi þýða dýrari vöru fyrir kaupendurna, er því næmi. Mér finnst því ekki rétt að farið hjá hæstv. stj. og hv. landbn., að bera fram og mæla með slíku frv.

Ég á hér brtt., sem nú samstundis er að koma úr prentun, og vænti þess, að hæstv. forseti lýsi henni, svo hún geti komið til atkv.